Erlent

Óttast borgarastyrjöld í Bólivíu

Óli Tynes skrifar
Grátið yfir kistum ættingja sem hafa fallið í óeirðum í Bólivíu undanfarna viku.
Grátið yfir kistum ættingja sem hafa fallið í óeirðum í Bólivíu undanfarna viku. MYND/AP

Forsetar Suður-Ameríkuríkja streyma nú til neyðarfundar í Chile til þess að reyna að koma í veg fyrir að borgarastyrjöld brjótist út í Bólivíu. Þar í landi hafa blóðugar óeirðir kostað yfir þrjátíu manns lífið síðustu vikuna.

Evo Morales hinn marxiski forseti Bólivíu á í stríði við hægri sinnaða fylkisstjóra sem vilja fá meiri sjálfstjórn fylkja sinna frá alríkisstjórninni. Morales og Hugo Chaves forseti Venesúela eru góðir vinir.

Þegar Morales rak sendiherra Bandaríkjanna úr landi í síðustu viku gerði Chaves slíkt hið sama með vel völdum fúkyrðum um Bandaríkjamenn sem hann sagði að fara hundrað sinnum til helvítis.

Bandaríkjamenn sögðu að þetta væru aðgerðir veikra og örvæntingarfullra leiðtoga sem væru að reyna að draga athyglina frá eigin óstjórn með því að búa til sameiginlegan óvin erlendis.

Borgarastyrjöld í Bólivíu hefði skelfilegar afleiðingar. Ekki bara fyrir Bólivíu heldur fyrir allan þennan heimshluta.

Bólivía er fyrir miðri Suður-Ameríku og á landamæri að fimm nágrannaríkjum. Landamæri yrðu því víða í uppnámi ef til borgarastríðs kæmi.

Bólivía er aukinheldur mikill gasframleiðandi og Brasilía til dæmis reiðir sig á gas þaðan. Það er því líka óttast um orkuöryggi og efnahagsleg áföll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×