Erlent

Rútuböðull fyrir dómara

Óli Tynes skrifar

Enginn veit af hverju Vince Weiguang Li réðist skyndilega á meðfarþega sinn hinn 22 ára gamla Tim McLean.

Þeir höfðu setið hvor á sínum stað í Greyhound rútunni og ekkert benti til að þeir þekktust. Rútan var á leiðinni frá Edmonton til Winnipeg.

Eftir hvíldarstopp settist Weiguang Li við hliðina á McLean. Skyndilega stökk hann á fætur, dró upp stóran veiðihníf réðst á McLean og stakk hann margsinnis.

Skelfingu lostnir farþegarnir æptu og veinuðu og forðuðu sér út úr rútunni þegar bílstjórinn stöðvaði hana.

Weiguang Li skipti sér ekkert af þeim sem hlupu framhjá honum á leiðinni út. Hann hamaðist bara áfram við að stinga McLean.

Flutningabíll stoppaði til að gá hvað væri á seyði. Bílstjóri hans fór ásamt rútubílstjóranum og farþega til þess að gá hvað væri að gerast í rútunni.

Þegar þeir komu þar inn var Weiguang Li að skera höfuðið af Tim McLean. Þeir forðuðu sér þegar hann kom æðandi að þeim. Þeim tókst að hálfloka hurðinni og halda henni fastri þannig að Weiguang Li komst ekki út.

Hann gat þó stungið hnífnum út í gegnum rifu og reyndi að skera þá. Það tókst ekki og morðinginn fór þá aftur í rútuna. Hinir vopnuðust þá kúbeini og hamri úr vörubílnum og stóru vörð við hurð rútunnar.

Weigung Li kom þá aftur frammí, og veifaði höfðinu af McLean framan í þá. Lögreglan kom svo á vettvang og handtók Weiguang Li án átaka.

Þegar hann var leiddur fyrir dómara í dag svaraði Weiguang Li ekki þegar dómarinn spurði hvort hann ætlaði að fá sér lögfræðing. Þegar dómarinn spurði hvort hann vildi nýta rétt sinn til að tjá sig ekki kinkaði hann kolli.

Saksóknarinn sagði við blaðamenn að þeir myndu bíða eftir úrskurði geðlæknis um hvort Weiguang Li sé sakhæfur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×