Fjöldi flugdólga í Bretlandi hefur þrefaldast á síðustu fimm árum að sögn Flugmálastjórnarinnar þar í landi.
Tölur hennar sýna að á fyrstu þrem mánuðum þessa árs urðu yfir 600 tilfelli þar sem farþegar fengu bræðiköst sem talin voru alvarleg.
Flestir flugdólgarnir eru karlmenn á þrítugsaldri en 25 prósent eru konur. Talsmaður samtaka breskra flugmanna segir að sumir flugmenn telji að auknar tafir á flugi eigi hér hlut að máli.
Farþegarnir séu orðnir blindfullir og pirraðir á biðinni loksins þegar þeir komast um borð.
Flugdólgar geta valdið mikilli hættu. Í síðasta mánuði flaug bresk vél af leið og nauðlenti eftir að sauðdrukkinn dólgur reyndi að opna einn af útgöngum vélarinnar.