Erlent

Frakkar réðust á sjóræningja

Óli Tynes skrifar
Sómölsku sjóræningjarnir eru yfirleitt ekki á merkilegum fleytum. Þeir eru hinsvegar vopnaðir eldflaugum og vélbyssum.
Sómölsku sjóræningjarnir eru yfirleitt ekki á merkilegum fleytum. Þeir eru hinsvegar vopnaðir eldflaugum og vélbyssum.

Víkingasveit úr franska hernum réðst í dag um borð í franska seglskútu sem sómalskir sjóræningjar rændu í síðustu viku. Einn sjóræningjanna var skotinn til bana og sex handteknir. Tveggja manna áhöfn skútunnar sakaði ekki.

Þetta er í annað skipti á þessu ári sem Frakkar láta til skarar skríða gegn sómölskum sjóræningjum sem hafa rænt yfir 30 skipum það sem af er þessu ári.

Í apríl síðastliðnum handtóku víkingasveitarmenn sex sjóræningja skömmu eftir að þeir höfðu fengið greitt lausnargjald fyrir franskt seglskip með þrjátíu manna áhöfn.

Nicolas Sarkozy forseti Frakklands fyrirskipaði árásina í morgun. Hann sagði að árásin væri aðvörun frá Frökkum um að þeir taki ekki sjóráni þegjandi. Forsetinn sagði að frönsk herskip myndu nú byrja að fylgja skipum sem sigla um Aden flóa.

Það sé hinsvegar ekki nóg. Alþjóðasamfélagið verði allt að taka ábyrgð á því að gera siglingar á þessum slóðum öruggar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×