Evrópusambandið hefur sent tvær franskar slökkviliðsvélar til Búlgaríu þar sem barist er við gríðarlega skógarelda í Rila þjóðgarðinum.
Þjóðgarðurinn er sunnan við höfuðborgina Sofia. Eldarnir hafa þegar brennt yfir 130 hektara lands til kaldra kola.
Frönsku vélarnar eru flugbátar. Þeir lenda á stöðuvötnum í grennd við eldana og fylla þar á tanka sína keyrandi á fullri ferð. Svo hefja þeir sig til flugs og tæma úr tönkunum yfir eldana.
Menn greinir á um hversu mikið gagn slökkviliðsvélar gera. Ef eldarnir eru miklir segja sumir að það sé alveg eins gott að reyna að pissa á þá.
Vélarnar séu fyrst og fremst sendar til þess að sýna almenningi að verið sé að gera eitthvað.