Erlent

Átta ára hryðjuverkamaður

Óli Tynes skrifar

Meðal öryggisráðstafana sem bandarísk stjórnvöld hafa gert eftir 9/11 árásirnar er að búa til lista yfir grunaða hryðjuverkamenn. Sá listi er hinn undarlegasti. Er nú svo komið að fjölmiðlar eru farnir að gera grín að honum og tína til undarleg tilfelli.

Meðal hinna hugsanlegu hryðjuverkamanna eru þrír sem heita James Robinson. Einn þeirra er margheiðraður fyrrverandi hershöfðingi í Bandaríska flughernum. Hann er nú flugstjóri hjá stóru flugfélagi.

Öryggisnefnd bandaríska samgönguráðuneytisins hefur gefið leyfi til þess að hann beri skammbyssu í stjórnklefanum til þess að verjast hugsanlegum flugræningjum.

En James Robinson er á lista alríkislögreglunnar yfir hugsanlega hryðjuverkamenn. Enginn getur sagt honum hvernig hann lenti þar.

Annar James Robinson er fyrrverandi aðstoðar ríkissaksóknari í stjórnartíð Bills Clinton. Enginn getur heldur sagt honum af hverju hann er á lista FBI.

Hinn þriðji James Robinson er svo tennisáhugamaður sem býr í Kaliforníu. Þar sem hann er á listanum kemst hann ekki í flugi til þess að heimsækja ömmu sína sem býr á austurströnd Bandaríkjanna.

Þessi James Robinson er átta ára gamall. Hann hefur verið á lista FBI síðan hann var fimm ára gamall.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×