Erlent

Sér fyrir endalok Tamíl tígra

Óli Tynes skrifar

Yfirmaður stjórnarhers Sri Lanka segir að hann sjái fyrir endalok uppreisnar Tamíl tígra. Í mikilli sókn sem staðið hefur í átján mánuði hafi þeir fellt 9000 af 12000 manna her þeirra.

Sarath Fonseka hershöfðingi telur að þeir Tígrar sem eftir séu láti sig hverfa frekar en berjast til síðasta manns.

Í aðgerðunum undanfarið eitt og hálft ár hefur stórnarherinn sótt hægt en stöðugt að Kilinochchi, höfuðstöðvum Tamíla.

Á leiðinni hafa þeir upprætt hvert víghreiður þeirra af öðru með aðstoð flughers og flota.

Fonseka segir að þeir séu nú aðeins fimm og hálfan kílómetra frá höfuðstöðvunum. Hann vill ekki gefa neina tímaáætlun um endalok stríðsins.

Ástæðan fyrir því að herinn sæki hægt fram sé sú að þeir ætli sér að drepa alla uppreisnarmennina.

Þeir ætli ekki að lenda í aðstöðu eins og í Írak þar sem heilu vígasveitirnar hafi verið skildar eftir bak við víglínuna og lagst í skæruhernað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×