Tilfinningaskyldan Hallgrímur Helgason skrifar 2. ágúst 2008 06:00 Dómsmálaráðherra hefur, í samvinnu við Ríkislögreglustjóra, Neyðarlínuna, Landhelgisgæsluna og Landssamtök björgunarsveita, ákveðið að koma á fót nýrri tegund af neyðarvakt sem lýtur að tilfinningalífinu. Verkefnið, sem hlotið hefur nafnið Tilfinningaskyldan, hefur verið nokkurn tíma í undirbúningi en fyrstu tilraunir með þetta nýja kerfi voru gerðar fyrr í sumar og nú er ráðgert að prufukeyra það enn frekar um verslunarmannahelgina. Að sögn Helgu Drafnar Ásgeirsdóttur, verkefnisfulltrúa hjá áhættugreiningadeild Rikislögreglustjóra, hefur þessi þjónusta verið að ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum á undanförnum árum og gefið góða raun. Í upphafi var starfsemin aðeins bundin við sumartímann en bæði í Noregi og Svíþjóð hefur hún vaxið hratt og er nú starfrækt allan ársins hring. „Norðmenn kalla þetta Hjartavaktina en hún tók til starfa árið 2005 og hefur gengið mjög vel síðan. Það hefur sýnt sig að fórnarlömb ástarröskunar eru treg til að hringja í Neyðarlínuna og því er hér um hreina viðbót að ræða. Menn telja líka að þjónustan skili sér margfalt til baka því þetta hefur auðvitað mikið forvarnargildi. Félagsfræðirannsóknir sýna að allt að 88% sjálfsvíga tengjast tilfinningasveiflum, þunglyndi eða geðlægðum sem oftar en ekki eiga sér upphaf í erfiðleikum í tilfinningalífinu. Þá hefur Rannsóknarnefnd umferðarslysa einnig komist að því að 31% slysa í umferðinni eru tilkomin sökum tilfinningaróts. Það er mjög sambærilegt niðurstöðum frá löndunum í kringum okkur," segir Helga Dröfn. Starfsstöð Tilfinningaskyldunnar verður fyrst um sinn í húsnæði Neyðarlínunnar í Skógarhlíð og verða tveir starfsmenn á sólarhringsvakt þar alla helgina. Auk þess verða fleiri starfsmenn á vettvangi sem sinna munu útköllum. Þriggja stafa bráðanúmeri verður dreift á tveimur af stærstu útihátíðum landsins og því geta einstaklingar sem lenda í slæmum hryggbrotum eða hjartasorgum um helgina hringt í númerið og þá eiga starfsmenn hjartavörslu að birtast von bráðar og veita fyrstu hjálp. Ragnar Sæberg er hjartavörður hjá Tilfinningaskyldunni. „Við komum til með að veita þessa hefðbundnu áfallahjálp, eins og Rauði krossinn og bjögunarsveitirnar hafa verið veita í gegnum tíðina en svo förum við líka aðeins dýpra í hlutina, því áföll af þessu tagi eru oft mun alvarlegri en þau sem fólk lendir í við jarðskjálfta eða húsbruna. Ástarsorg heltekur oft fólk mjög illa þannig að það gerir allskonar hluti sem það myndi alls ekki gera undir venjulegum kringumstæðum. Og þá kemur það til kasta okkar að tala fólk niður. Við höfum verið að prófa okkur áfram með nýjar aðferðir eins og það sem á ensku er kallað "power-hug" eða krafthuggun." Að sögn Ragnars getur meðferðin tekið allt upp undir sólarhring. „Við reynum að sinna fólki eins lengi og við mögulega getum, en þetta er auðvitað allt á byrjunarstigi og við erum kannski full fáliðuð ennþá. En við erum ákveðin í því að standa okkur um helgina." Verkefnisstýra og væntanlegur forstöðumaður hinnar nýju þjónustu er Vigdís Embla Orradóttir, sem hefur fylgt verkefninu úr hlaði fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins. Að sögn hennar hefur kerfið þegar sannað ágæti sitt því fyrr í sumar hafi verið gerðar tilraunir með það og árangur verið umfram væntingar. „Símaverið hefur í raun verið opið frá 1. júní þótt það hafi ekki verið gert opinbert," segir Vigdís Embla. „Í vor dreifðum við bráðanúmerinu í nokkrar deildir vinnuskóla á höfuðborgarsvæðinu og strax í fyrstu vikunni fengum við nokkur símtöl. Það sem kom þó mest á óvart var að í lok mánaðarins var hringt úr Landmannalaugum þar sem þýsk stúlka var í hættu stödd eftir að hafa sinnast við unnusta sinn. Hún hafði hlaupið fáklædd út í mjög illfært hraun og var orðin köld. Við unnum þessa aðgerð í samvinnu við Landhelgisgæsluna sem sendi þyrlu á staðinn og málið fékk farsælan endi." Umrædd stúlka hafði fengið númerið hjá íslenskri vinkonu sinni. Hún hafði reyndar áður nýtt sér samskonar þjónustu í heimalandi sínu en Þjóðverjar voru með fyrstu þjóðunum til að koma á fót neyðarlínu af þessu tagi. Að sögn Vigdísar Emblu verður veturinn notaður til reynslumats og þjálfunar starfsfólks. Hún reiknar með því að bráðanúmerið verði auglýst meðal almennings strax næsta vor og þá verði starfsemi Tilfinningaskyldunnar komin í fastar skorður. Ekki náðist í dómsmálaráðherra við vinnslu fréttarinnar og hann svaraði ekki spurningum sem honum voru sendar í tölvubréfi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Dómsmálaráðherra hefur, í samvinnu við Ríkislögreglustjóra, Neyðarlínuna, Landhelgisgæsluna og Landssamtök björgunarsveita, ákveðið að koma á fót nýrri tegund af neyðarvakt sem lýtur að tilfinningalífinu. Verkefnið, sem hlotið hefur nafnið Tilfinningaskyldan, hefur verið nokkurn tíma í undirbúningi en fyrstu tilraunir með þetta nýja kerfi voru gerðar fyrr í sumar og nú er ráðgert að prufukeyra það enn frekar um verslunarmannahelgina. Að sögn Helgu Drafnar Ásgeirsdóttur, verkefnisfulltrúa hjá áhættugreiningadeild Rikislögreglustjóra, hefur þessi þjónusta verið að ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum á undanförnum árum og gefið góða raun. Í upphafi var starfsemin aðeins bundin við sumartímann en bæði í Noregi og Svíþjóð hefur hún vaxið hratt og er nú starfrækt allan ársins hring. „Norðmenn kalla þetta Hjartavaktina en hún tók til starfa árið 2005 og hefur gengið mjög vel síðan. Það hefur sýnt sig að fórnarlömb ástarröskunar eru treg til að hringja í Neyðarlínuna og því er hér um hreina viðbót að ræða. Menn telja líka að þjónustan skili sér margfalt til baka því þetta hefur auðvitað mikið forvarnargildi. Félagsfræðirannsóknir sýna að allt að 88% sjálfsvíga tengjast tilfinningasveiflum, þunglyndi eða geðlægðum sem oftar en ekki eiga sér upphaf í erfiðleikum í tilfinningalífinu. Þá hefur Rannsóknarnefnd umferðarslysa einnig komist að því að 31% slysa í umferðinni eru tilkomin sökum tilfinningaróts. Það er mjög sambærilegt niðurstöðum frá löndunum í kringum okkur," segir Helga Dröfn. Starfsstöð Tilfinningaskyldunnar verður fyrst um sinn í húsnæði Neyðarlínunnar í Skógarhlíð og verða tveir starfsmenn á sólarhringsvakt þar alla helgina. Auk þess verða fleiri starfsmenn á vettvangi sem sinna munu útköllum. Þriggja stafa bráðanúmeri verður dreift á tveimur af stærstu útihátíðum landsins og því geta einstaklingar sem lenda í slæmum hryggbrotum eða hjartasorgum um helgina hringt í númerið og þá eiga starfsmenn hjartavörslu að birtast von bráðar og veita fyrstu hjálp. Ragnar Sæberg er hjartavörður hjá Tilfinningaskyldunni. „Við komum til með að veita þessa hefðbundnu áfallahjálp, eins og Rauði krossinn og bjögunarsveitirnar hafa verið veita í gegnum tíðina en svo förum við líka aðeins dýpra í hlutina, því áföll af þessu tagi eru oft mun alvarlegri en þau sem fólk lendir í við jarðskjálfta eða húsbruna. Ástarsorg heltekur oft fólk mjög illa þannig að það gerir allskonar hluti sem það myndi alls ekki gera undir venjulegum kringumstæðum. Og þá kemur það til kasta okkar að tala fólk niður. Við höfum verið að prófa okkur áfram með nýjar aðferðir eins og það sem á ensku er kallað "power-hug" eða krafthuggun." Að sögn Ragnars getur meðferðin tekið allt upp undir sólarhring. „Við reynum að sinna fólki eins lengi og við mögulega getum, en þetta er auðvitað allt á byrjunarstigi og við erum kannski full fáliðuð ennþá. En við erum ákveðin í því að standa okkur um helgina." Verkefnisstýra og væntanlegur forstöðumaður hinnar nýju þjónustu er Vigdís Embla Orradóttir, sem hefur fylgt verkefninu úr hlaði fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins. Að sögn hennar hefur kerfið þegar sannað ágæti sitt því fyrr í sumar hafi verið gerðar tilraunir með það og árangur verið umfram væntingar. „Símaverið hefur í raun verið opið frá 1. júní þótt það hafi ekki verið gert opinbert," segir Vigdís Embla. „Í vor dreifðum við bráðanúmerinu í nokkrar deildir vinnuskóla á höfuðborgarsvæðinu og strax í fyrstu vikunni fengum við nokkur símtöl. Það sem kom þó mest á óvart var að í lok mánaðarins var hringt úr Landmannalaugum þar sem þýsk stúlka var í hættu stödd eftir að hafa sinnast við unnusta sinn. Hún hafði hlaupið fáklædd út í mjög illfært hraun og var orðin köld. Við unnum þessa aðgerð í samvinnu við Landhelgisgæsluna sem sendi þyrlu á staðinn og málið fékk farsælan endi." Umrædd stúlka hafði fengið númerið hjá íslenskri vinkonu sinni. Hún hafði reyndar áður nýtt sér samskonar þjónustu í heimalandi sínu en Þjóðverjar voru með fyrstu þjóðunum til að koma á fót neyðarlínu af þessu tagi. Að sögn Vigdísar Emblu verður veturinn notaður til reynslumats og þjálfunar starfsfólks. Hún reiknar með því að bráðanúmerið verði auglýst meðal almennings strax næsta vor og þá verði starfsemi Tilfinningaskyldunnar komin í fastar skorður. Ekki náðist í dómsmálaráðherra við vinnslu fréttarinnar og hann svaraði ekki spurningum sem honum voru sendar í tölvubréfi.