Erlent

Geimrusl veldur hættu

Óli Tynes skrifar
Jörðin séð frá tunglinu.
Jörðin séð frá tunglinu.

Það er orðið hættulegra en áður að fara út í geiminn. Bandaríska geimeftirlitsstofnunin segir að um þrettán þúsund manngerðir hlutir sem eru stærri en tíu sentimetrar séu á braut um jörðu.

Þar við bætast milljónir minni hluta, eins og málningarflögur og plast afgangar.

Síðan Rússar skutu upp fyrsta geimfarinu Sputnik árið 1957 hefur um 2500 geimförum verið skotið út í geiminn.

Hlutir á braut um jörðu eru á um 27 þúsund kílómetra hraða. Árekstur við jafnvel mjög lítinn hlut myndi því kosta geimfara lífið.

Að lokum dregur aðdráttarafl jarðar alla þessa hluti inn í gufuhvolf jarðar þar sem þeir brenna flestir upp.

Elsta geimdraslið sem vitað er um er bandarískur Vanguard gervihnöttur sem skotið var á loft árið 1958. Hann hætti að virka árið 1964.

Með forvitnilegri hlutum á braut um jörðu er hanski sem geimfarinn Ed White missti í geimgöngu árið 1965.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×