Viðskipti innlent

Kröfu Novators hafnað

Björgólfur Thor Björgólfsson, aðaleigandi Novator.
Björgólfur Thor Björgólfsson, aðaleigandi Novator.

Krafa Novators, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar, um að fá tvo menn í stjórn finnska fjarskiptafélagsins Elisa, náði ekki fram að ganga, á fjölmennum hluthafafundi sem haldinn var í dag.

Þúsundir hluthafa mættu til fundarins að sögn finnskra fjölmiðla. Viðskipti með hlutabréf í félaginu voru stöðvuð meðan á fundinum stóð.

Novator er lang stærsti einstaki hluthafinn í félaginu og krafðist hluthafafundarins til að breyta stefnu félagsins. Í því skyni vildi Novator fá tvo menn í stjórn, og hafði Björgólfur Thor þegar tilnefnt Orra Hauksson. Hinn stjórnarmaðurinn yrði íslenskur eða breskur.

Þessari kröfu var hins vegar hafnað á fundinum og situr stjórn Elisa því áfram.

Novator hafði einnig lagt fram tillögur til breytinga á samþykktum, en tók þær aftur fyrir fundinn.

Töluverð andstaða hefur verið við hugmyndir Novators í Finnlandi. Það hefur Björgólfur Thor skýrt með finnskri þjóðernishyggju.

Pekka Ketonen, stjórnarformaður Elisa, hefur á móti sagt að hugmyndir Novators um framtíð félagsins væru óskýrar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×