Viðskipti innlent

Gengi Existu og SPRON aldrei lægra

Lýður og Ágúst Guðmundssyni, stærstu hluthafar í Existu.
Lýður og Ágúst Guðmundssyni, stærstu hluthafar í Existu.
Gengi bréfa í Existu féll um 5,3 prósent og SPRON um tæp 3,5 prósent skömmu eftir að viðskipti hófust í Kauphöll Íslands í dag en gengi félaganna hefur aldrei verið lægra. Fallið kemur í kjölfar umfjöllunar sænska bankans Enskilda um finnska tryggingafélagið Sampo. Þar segir að eiginfjárstaða Existu, sem á 20 prósent í Sampo, sé verri en af sé látið. Nemi hún jafnvirði um 35 milljörðum króna og geti svo farið að félagið verði að selja bréf sín í Sampo og norska fjármálafyrirtækinu Storebrand, jafnvel með afslætti.

Í umfjölluninni er miðað við eigið fé Existu í lok september og frá því dregin öll lækkun í hlutabréfaverði eigna félagsins frá hæstu gildum, bæði hér heima og erlendis, sem í flestum tilfellum voru um mitt síðasta ár en það hafði lækkað nokkuð undir haust.

Gengi allra fjármálafyrirtækjanna sem skráð eru í Kauphöllina hefur lækkað á sama tíma á bilinu eitt til 2,5 prósent.

Á sama tíma hefur gengi Eimskipafélagsins hækkað um 3,7 prósent, Atlantic Petroleum um tæp 2,5 og Teymis um tæp 0,7 prósent.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,8 prósent og stendur hún í 5.193 stigum sem þýðir að öll hækkun hennar síðastliðin tvö ár er gufuð upp og stendur á svipaðri syllu og í byrjun desember árið 2005.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×