Haukar unnu í dag sigur á Keflavík í sveiflukenndum leik á Ásvöllum í Iceland Express deild kvenna, 94-89.
Þar með skilja aðeins tvö stig efstu fjögur liðin í deildinni en Keflavík, KR og Grindavík eru öll 24 stig en Haukar eru með 22 stig. Haukar hafa þó leikið einum leik meira en hin liðin.
Haukar náðu nítján stiga forystu í fyrsta leikhluta, 38-19, en Keflvíkingar bitu frá sér í öðrum leikhluta og unnu hann með 34 stigum gegn 17.
Staðan í hálfleik var 57-55, Keflvíkingum í vil, og þeir juku forystuna sína í fjögur stig áður en fjórði leikhluti hófst.
Þá tóku Haukar hins vegar aftur völdin í leiknum þar til Keflavík skoraði tvær þriggja stiga körfur í röð og náðu fjögurra stiga forystu, 89-85, þegar tvær og hálf mínúta var til leiksloka.
Haukar skoruðu hins vegar síðustu níu stig leiksins og unnu sem fyrr segir fimm stiga sigur, 94-89.
Kiera Hardy skoraði 37 stig fyrir Hauka og þær Unnur Tara Jónsdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir voru með 21 stig hver auk þess sem Unnur Tara tók tólf fráköst og gaf fimm stoðsendingar.
TaKesha Watson var stigahæst leikmanna Keflavíkur með 29 stig og fimmtán fráköst. Birna Valgarðsdóttir kom næst með nítján stig og Margrét Kara Sturludóttir var með sautján.