Viðskipti innlent

Flaga upp um rúm 180 prósent á viku

Unnið við smíði svefnmælingatækis hjá Flögu.
Unnið við smíði svefnmælingatækis hjá Flögu. Mynd/E.Ól.

Gengi bréfa í svefnrannsóknafyrirtækinu Flögu hélt áfram að hækka í dag, nú um rúm sjö prósent við upphaf viðskipta. Aðeins tvö félög sem skráð eru í Kauphöllina hafa hækkað á árinu.

Gengi bréfa fyrirtækisins hefur legið í láginni upp á síðkastið, verið í um 55 aurum á hlut. Venjulega eru afar litlar hreyfingar með bréf þess og þarf lítið til að hreyfa við genginu hvort heldur er upp eða niður.

Flaga hefur hækkað hratt á einni viku, um rúm 180 prósent. Greiningardeild Kaupþings sagði í gær að forstjóri og fjármálastjóri Flögu hafi keypt stóra hluti í félaginu.

Gengi bréfa í Flögu og Nýherja eru þau einu sem hafa hækkað í Kauphöllinni frá áramótum. Nýherji hefur hækkað um 2,5 prósent og Flaga um rúm 82 prósent.

Að öðru leyti hefur gengi allra fyrirtækja í Kauphöllinni ýmist lækkað eða staðið í stað í dag. Gengi bréfa í SPRON hefur fallið um rétt rúm fimm prósent, Existu um 3,7 prósent, í Glitni um 2,7 prósent og FL Group um 2,5.

Úrvalsvísitalan hefur á sama tíma fallið um tvö prósent og stendur vísitalan í 5.328 stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×