Viðskipti innlent

SPRON féll um rúm sex prósent í byrjun dags

Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON.
Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON.

SPRON tók snarpa dýfu rétt eftir upphaf viðskiptadagsins í Kauphöll Íslands í dag þegar gengi þess féll um 6,17 prósent. Gengið bréfa í sparisjóðnum stendur nú í 5,66 krónum á hlut sem er litlum fjórum aurum yfir lægsta gengi þeirra frá upphafi.

Þetta jafngildir því að bréf sparisjóðsins hafa fallið um rétt 70 prósent frá því hann var skráður á markað undir lok október í fyrra. Það jafnaði sig lítillega nokkrum mínútum síðar.

Líkt og fyrri daginn fylgir Exista falli SPRON en gengi fjármálaþjónustufélagsins hefur fallið um 3,3 prósent í dag. Á hæla þess fylgja allir íslensku bankarnir og fjármálafyrirtækin.

Ekkert félag hefur hækkað í dag en nokkur standa í stað.

Úrvalsvísitalan hefur að sama skapi fallið um slétt tvö prósent og stendur vísitalan í 5.128 stigum.

Þetta er nokkuð í samræmi við þróunina á erlendum hlutabréfamörkuðum í dag en samnorræna hlutabréfavísitalan OMX 40 hefur lækkað um 0,44 prósent það sem af er dags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×