Viðskipti innlent

Hagnaður Eyris dróst saman milli ára

Árni Oddur Þórðarson, framkvæmdastjóri Eyris Invest.
Árni Oddur Þórðarson, framkvæmdastjóri Eyris Invest.

Eyrir Invest hagnaðist um 797 milljónir króna á síðasta ári samanborið við tæpa 1,6 milljarða krónur í hitteðfyrra. Eigið fé Eyris jókst um 51 prósent í fyrra með hagnaði og hlutafjáraukningu.

Tekjur félagsins, sem eru kjölfestufjárfestar í Marel og Össuri, námu 1,2 milljörðum króna, sem er 42 prósent samdráttur á milli ára.

Í tilkynningu frá Eyri til Kauphallarinnar segir, að frá stofnun Eyris Invest á miðju ári 2000 hafi árleg hækkun á innra virði hlutafjár numið 49,9 prósentum að meðaltali til samanburðar við 3,8 prósenta neikvæða árlega meðalávöxtun heimsvísitölu MSCI fyrir sama tímabil í evrum mælt.

Eigið fé í árslok nam um 18.133 milljónum króna en það var 11.995 milljónir í upphafi ársins. Inn í tölunum er hlutafjáraukning upp á 5.382 milljónir króna.

Eiginfjárhlutfall í árslok var 39 prósent, skattskuldbinding 4 prósent af heildareignum og sjóðsstaða er sterk, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Þá segir ennfremur að allar eignir Eyris Invest séu bókfærðar á markaðsvirði og engir framvirkir samningar um hlutabréf opnir í lok uppgjörstímabilsins.

Eyrir Invest, í samstarfi við Landsbanka Íslands og Candover, gerði vinveitt yfirtökutilboð í allt hlutafé hollensku iðnaðarsamsteypunnar Stork N.V. Skilyrðum tilboðsins var fullnægt 17. janúar 2008 en heildarverðmæti tilboðsins nemur 1,7 milljörðum evra. Samhliða seldu Eyrir Invest, Landsbanki Íslands og Marel sameiginlegan eignarhluta sinn í Stork N.V. Félögin byggðu upp á tveimur árum 43 prósenta eignarhlut í gegnum LME, sameiginlegt eignarhaldsfélag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×