Viðskipti innlent

FL Group seldi öll bréfin í AMR

Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, á uppgjörsfundi félagsins í dag.
Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, á uppgjörsfundi félagsins í dag. Mynd/Anton

FL Group hefur selt öll hlutabréf sín í bandarísku flugrekstrarsamstæðunni AMR, að sögn Jóns Sigurðssonar, forstjóra FL Group.

Félagið flaggaði tæpum sex prósenta hlut í þessu móðurfélagi American Airlines, einu stærsta flugfélagi Bandaríkjanna, skömmu fyrir áramótin í hitteðfyrra og átti þegar mest lét rúman níu prósenta hlut.

FL Group beitti stjórn AMR miklum þrýstingi til að auka gegnsæi eignasafns AMR í því augnamiði að auka virði þess og var talsvert ágengt.

Gengi bréfa í AMR fór hæst í 40,66 dali á hlut í febrúar en tók að dala hratt og hafði lækkað um tæp sextíu prósent þegar árið var á enda runnið. Það stendur nú í 15,56 dölum á hlut.

FL Group losaði sig við mestan hluta bréfa sinna í félaginu í enda nóvember í fyrra en hélt eftir 1,1 prósenti. Í síðasta mánuði losaði það um fleiri bréf.

Á uppgjörsfundi FL Group fyrir stundu sagði Jón Sigurðsson, forstjóri félagsins, að félagið hefði selt öll bréf sín í bandarísku flugrekstrarsamstæðunni og væri þar með horfið úr hluthafahópnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×