Fótbolti

Tottenham og Bolton unnu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dimitar Berbatov skoraði fyrra mark Tottenham í Prag.
Dimitar Berbatov skoraði fyrra mark Tottenham í Prag. Nordic Photos / Getty Images

Ensku liðin Tottenham og Bolton unnu bæði viðureignir sínar í 32-liða úrslitum UEFA-bikarkeppninnar í kvöld.

Tottenham hafði mikla yfirburði gegn Slavia Prag á útivelli en var engu að síður nálægt því að missa niður unnin leik í jafntefli. En Tottenham náði að innbyrða sigurinn að lokum, 2-1.

Þá vann Bolton nauman sigur á Atletico Madrid, 1-0, þar sem hæst bar rauða spjaldið sem Sergio Aguero fékk í síðari hálfleik en Bolton skoraði svo strax í kjölfarið.

Tottenham fékk óskabyrjun í Prag þar sem að Dimitar Berbatov skoraði með laglegu skoti strax á fjórðu mínútu.

Heimamenn héldu þó haus og reyndu að sækja af fremsta megni. En agaður sóknarleikur Tottenham skilaði liðinu öðru marki áður en hálfleikurinn var liðinn. Jermaine Jenas átti þátt í fyrra markinu og lagði upp það síðara fyrir Robbie Keane sem kláraði færið af miklum sóma.

Tottenham hafði þó mikla yfirburði í fyrri hálfleik og hefðu þess vegna getað skorað fleiri mörk en þau tvö sem komu.

Gestirnir höfðu áfram yfirburði í upphafi síðari hálfleiksins í Prag en mistök Radek Cerny gerði það að verkum að leikmenn Slavia komust aftur inn í leikinn.

Cerny misti af fyrirgjöf og David Strihavka nýtti sér gjöfina og kom heimamönnum á blað á 69. mínútu.

Berbatov fékk nokkur færi til að bæta í forystu Tottenham en heimamenn voru einnig nálægt því að jafna metin. Allt kom fyrir ekki og því niðurstaðan góður sigur Tottenham í Prag.

Staðan í viðureign Bolton og Atletico Madrid var markalaus í fyrri hálfleik en bæði lið fengu þó sín færi.

Leikmenn Atletico voru þó með yfirburði í síðari hálfleik allt þar til Sergio Aguero braut á Matt Taylor um miðjan síðari hálfleikinn.

Aguero gerði svo eitthvað sem verðskuldaði rautt spjald. Vangaveltur voru um að hann hefði hrækt á annan aðstoðardómara leiksins.

Til að bæta gráu á svart skoraði Bolton eina mark leiksins úr kjölfarið en El Hadji Diouf var þar að verki á 74. mínútu.

Það reyndist eina mark leiksins og niðurstaðan afar sætur sigur Bolton á heimavelli.

Úrslit annarra leikja í kvöld:

Aberdeen - Bayern München 2-2

Zürich - Hamburg 1-3

Rosenborg - Fiorentina 0-1

Benfica - Nürnberg (1-0, leik ekki lokið)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×