Viðskipti innlent

Hagnaður Icelandair tekur dýfu

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. Mynd/GVA

Hagnaður Icelandair Group dróst verulega saman á milli ára í fyrra. Hagnaðurinn nam 257 milljónum króna á árinu samanborið við 2,6 milljarða í hitteðfyrra. Þá tapaði félagið 780 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi samanborið 551 milljóna króna tap á sama tíma árið á undan.

Í uppgjöri flugfélagsins kemur fram að heildartekjur ársins námu 63,5 milljónum króna, sem sé þrettán prósenta aukning á milli ára. Heildartekjur á fjórða ársfjórðungi einum saman námu 15,3 milljörðum sem er 3,3 milljarða króna aukning á milli ára.

Þá nam rekstrarhagnaðurinn á árinu 5,5 milljörðum króna sem er sex hundruð milljónum krónum minna en í hitteðfyrra. Þar af nam rekstrarhagnaðurinn á fjórða ársfjórðungi 515 milljónum króna samanborið við 338 milljónir í hitteðfyrra.

Eignir í lok ársins námu 66,8 milljörðum króna en þær voru 76,6 milljarðar

króna í enda þarsíðasta árs.

Eiginfjárhlutfall er 37 prósent í árslok sem er þriggja prósentustiga aukning á milli ára.

Handbært fé frá rekstri árið 2007 var 3,9 milljarðar króna en var 6,4 milljarðar króna í hitteðfyrra.

Haft er eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra félagsins sem tók við af Jóni Karli Ólafssyni í desember, að afkoman sé í samræmi við spánna sem kynnt var í nóvember. "Fyrirtækin innan samstæðunnar mynda sterka heild og undirstöður þess eru traustar og fjölþættar, en fjármagnskostnaður hækkaði verulega á árinu. Ljóst er að afkoma félagsins þarf að batna, efniviðurinn er til staðar, og ég er bjartsýnn á framhaldið," segir hann.

Uppgjör Icelandair Group"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×