Viðskipti innlent

Íslenskar eignir á uppleið erlendis

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings. Gengi bréfa í bankanum hefur hækkað um rúmt prósentustig í sænsku kauphöllinni.
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings. Gengi bréfa í bankanum hefur hækkað um rúmt prósentustig í sænsku kauphöllinni.

Fjárfestar virðast almennt ánægðir með aðgerðir bandaríska seðlabankans í gær sem stuðla eiga að því að auka fjárflæði á fjármálamörkuðum og væta upp í lausafjárþurrðinni.

Aðgerðin hljóðar upp á aðgang banka og fjármálafyrirtækja upp á allt að 200 milljarða dala, jafnvirði rúmra 13.600 milljarða íslenskra króna, í formi nýrrar lánalínu. Ábyrgð er tekin í verðbréfasöfnum sem tengjast bandarískum undirmálslánum og hafa valdið háum afskriftum úr bókum fjármálafyrirtækja eftir því sem þrengt hefur um á fasteignamarkaði vestanhafs.

Gengi bandarískra hlutabréfa rauk upp eftir að ákvörðun seðlabankans var tilkynnt í gær. Dow Jones-hlutabréfavísitalan stökk upp um 3,55 prósent og Nasdaq-vísitalan um tæp fjögur prósent. Af einstökum félögum lækkaði gengi bréfa í deCode, móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar hins vegar um 0,5 prósent. Félagið birtir afkomutölur sínar eftir lokun hlutabréfamarkaða í Bandaríkjunum í kvöld.

Þá hækkaði Nikkei-vísitalan í Japan um 1,6 prósent. Viðskipti eru nýhafin í evrópskum kauphöllum og hafa hlutabréfavísitölur almennt hækkað um 1,2 til 1,3 prósent það sem af er dags.

Þá hefur samnorræna hlutabréfavísitalan OMX-40 hækkað um 1,6 prósent. C20-vísitalan í Kaupmannahöfn hefur hækkað um 1,2 prósent, vísitalan í kauphöllinni í Helsinki í Finnlandi hefur hækkað um 1,2 prósent og vísitalan í kauphöllinni í Stokkhólmi í Svíþjóð um rúm 1,8 prósent.

Gengi bréfa í Kaupþingi, sem skráð eru í Svíþjóð, hefur hækkað um 1,15 prósent. Bréf finnska fjármálafyrirtækisins Sampo, sem Exista á tæpan fimmtung í, hefur hækkað um 1,36 prósent á sama tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×