Viðskipti innlent

Fall á öllum hlutabréfamörkuðum

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings. Mynd/Vilhelm

Hlutabréfavísitölur um allan heim hafa tekið dýfu það sem af er degi eftir að bandaríski fjárfestingarbankinn JP Morgan tilkynnti að hann myndi kaupa kollega sinn Bear Stearns fyrir 236 milljónir dala, jafnvirði sautján milljarða íslenskra króna. Það er 93 prósenta lækkun á gengi bankans frá síðasta mánuði.

NZSE-hlutabréfavísitalan í kauphöllinni á Nýja-Sjálandi, en það er fyrsti hlutabréfamarkaðurinn sem opnar á nýjum degi, sló taktinn þegar hún féll við upphaf dags og endaði í 2,0 prósenta mínus. Aðrar hlutabréfavísitölur í Asíu fylgdu í kjölfarið en Nikkei-vísitalan í Japan féll um 3,7 prósent og Hang Seng-vísitalan í kauphöllinni í Hong Kong féll um 5,2 prósent.

Talsverð lækkun hefur að sama skapi verið í Evrópu í dag. FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur fallið um 2,6 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi um 3,7 prósent og hin franska Cac-40 hefur fallið um 2,9 prósent.

Svipuð lækkun er sömuleiðis á norrænum hlutabréfamörkuðum en samnorræna hlutabréfavísitalan OMX40 hefur fallið um rúm 3,2 prósent. Mesta fallið er í Svíþjóð og Finnlandi en vísitölur þar hafa fallið um rúm þrjú prósent.

Gengi bréfa í Kaupþingi, sem skráð eru í kauphöllina í Svíþjóð, hefur það sem af er degi fallið um 4,5 prósent. Þá hafa gengi bréfa í finnska tryggingafélaginu Sampo, sem Exista á tæpan fimmtung í, fallið um 3,4 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×