Viðskipti innlent

Kaupþing hækkar í Svíþjóð en íslenski markaðurinn lokaður

Sigurður Einarrsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri.
Sigurður Einarrsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri. Mynd/GVA

Gengi bréfa í Kaupþingi hefur hækkað um 4,4 prósent í OMX-kauphöllinni í Stokkhólmi í Svíþjóð í dag og gengi bréfa í finnska fjármálafyrirtækinU Sampo, sem Exista á tæpan fimmtungshlut í, lækkað um 1,1 prósent, í kauphöllinni í Helsinki í Finnlandi.

Á sama tíma eru engin viðskipti með hlutabréf hér enda hlutabréfamarkaðurinn lokaður vegna Skírdagsins. Sama máli gegnir um kauphöllina í Kaupmannahöfn.

Hlutabréfamarkaðurinn í Svíþjóð er opinn fram á miðjan dag en viðskipti munu vera opin í allan dag í OMX-kauphöllinni í Helsinki í Finnlandi, líkt og fram kemur á vefsíðu Kauphallar Íslands. Markaðirnir í Skandinavíu eru allir lokaðir á morgun, föstudaginn langa.

Helstu hlutabréfavísitölur eru rauðar í dag, bæði í Skandinavíu og víðar í Evrópu. Samnorræna hlutabréfavísitalan OMX-40 hefur lækkað um 1,25 prósent, en hlutabréfavísitalan í kauphöllinni í Helsinki lækkað um 1,36 prósent. Þá hefur sænska hlutabréfavísitalan lækkað á sama tíma um 0,74 prósent.

Þá hefur FTSE-vísitalan í kauphöllinni í Bretlandi lækkað um 0,73 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi lækkað um 0,1 prósent og Cac-40 vísitalan í Frakklandi lækkað um 0,57 prósent.

Nikkei-vísitalan hækkaði um 2,48 prósent í enda viðskiptadagsins í Japan í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×