Viðskipti innlent

Enn hækkar Kaupþing í Svíþjóð

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings. Gengi bréfa í bankanum hefur hækkað í fimm daga í röð í Svíþjóð.
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings. Gengi bréfa í bankanum hefur hækkað í fimm daga í röð í Svíþjóð. Mynd/Vilhelm

Gengi hlutabréfa í Kaupþingi sem skráð eru í Svíþjóð hafa hækkað um 2,4 prósent í dag. Þetta er jafnframt fimmti dagurinn í röð sem gengið hækkar en það hefur rokið upp um rúm 24 prósent síðan fyrir páska.

Fyrr í vikunni var talið að skortsalar hafi séð til botns í gengislækkuninni og lokað stöðum sínum og skýri það hækkunina að hluta.

Þá hefur gengi bréfa í finnska fjármálafyrirtækinu Sampo, sem Exista, stærsti hluthafi Kaupþings, á fimmtungshlut í og er jafnframt stærsti hluthafinn, hækkað um tæp tvö prósent.

Þetta er nokkuð yfir meðalhækkun á norrænum hlutabréfamörkuðum í dag. Samnorræna hlutabréfavísitalan OMX-40 hefur hækkað um 0,8 prósent. Þar af hefur C-20 hlutabréfavísitalan í kauphöllinni í Kaupmannahöfn hækkað um 1,2 prósent, hlutabréfavísitalan í kauphöllinni í Stokkhólmi hækkað um 1,15 prósent og finnska hlutabréfavísitalan hækkað um 0,44 prósent.

Hækkun er sömuleiðis á meginlandi Evrópu. FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur það sem af er dags hækkað um eitt prósent. Svipaða sögu er að segja af helstu hlutabréfavísitölum í öðrum löndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×