Innlent

Framlag Íslendinga mikilvægt

Guðjón Helgason skrifar

Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og friðarverðlaunahafi Nóbels, þykir mikið til framlags Íslands í loftslagsmálum koma. Þeir leggi til mikilvægt tæki og þekkingu í baráttuna gegn hlýnun jarðar.

Gore hefur tekið umhverfismál upp á sína arma svo eftir því hefur verið tekið síðan hann tapaði fyrir George Bush í umdeildum forsetakosningum árið 2000. Í fyrra fékk heimildarmynd hans um loftslagsmál óskarsverðlaun og hann sjálfur friðarverðlaun Nóbels.

Helstu ráðamenn og forkólfar í íslensku viðskiptalífi fjölmenntu í Háskólabíó í morgun til að hlýða á boðskap varaforsetans fyrrverandi. Hann byrjaði á að þakka fyrir sig á íslensku. Hann vakti mikla kátínu þegar hann kynnti sig þannig að hann hefði einu sinni verið verðandi forseti Bandaríkjanna.

Hann vék orðum að gestgjafa sínum og aldavin, Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, þegar hann ræddi vinnufund á Bessastöðum í gær. Hann sagði Ólaf Ragnar eina forsetann í heiminum sem myndi fá átta vísindamenn á slíkan fund til að flytja átta mismunandi fyrirlestra um hlýnun jarðar og loftslagsmál. Þetta hafi þó verið það sem Gore hefði þótt mest spennandi og það hafi forset Íslands vitað.

Gore sagði framlag Íslendinga í baráttunni gegn loftslagsbreytingum mikilvægt. Honum þætti mikið til þess koma hvernig Íslendingar hefðu tekið forystu í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Þeir þróuðu nýja tækni og hefðu í sínum röðum verkfræðinga sem hefðu margt fram að færa.

Gore kynnti sér starfsemi Hitaveitu Suðurnesja og Bláa lónið í hádeginu og síðan starfsemi Glitnis á sviði endurnýjanlegrar orku. Hann fór síðan af landi brott síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×