Menning

Kennileiti úr minni þjóðar

Þrír karlmenn, tvær kynslóðir, Finnbogi og Ólafur Haukur fæddir 45 og 47, Óskar Árni fæddur 59. Þrjár bækur sem rekja æskuár, tvær styðja frásögnina myndefni sem tengjast textunum. Sögusviðið er í kjarna sínum hverfið: Njálsgata, Jófríðarstaðahverfið austan við Eiði og Þingholtin, en í endurminningunni er leitað víðar: Óskar Árni fer lengst, austur á Langanes og alla leið til Winnipeg.

Bækurnar þrjár eru sjálfskönnun sem leikur á mörkum minninga, ljóðrænna stemninga og dramatískra átakapunkta úr umhverfinu, örlögum vandalausra og vandamanna: örsögum sem falla mismunandi að heildinni en verða minnisstæðastar: saga Óla af spilafíklinum, föður vinar hans; saga Óskars af örlögum Stefáns frænda hans sem markar á sinn hátt og upphaf og endi á syrpunni hans, Stefáni sem missir fótinn barn við nára norður á Siglufirði og deyr fullorðinn maður í eldsvoða í Brennu við Bergstaðastræti; sögur Finnboga af einstæðingskonum sem búa í kjöllurum Njálsgötu. Þessar sögur af hrikalegum örlögum alþýðufólks á fyrri hluta síðustu aldar standa skáldunum nærri, svo logandi sem þær eru í minningunni.

Sagði ég skáld: engum blöðum er um það að fletta Ólafur Haukur og Óskar Árni eru skáld, hvor með sín persónulegu einkenni, Finnbogi er nær því að vera sögumaður í hinum forna skilningi, sögur hans af Njálsgötunni nánast heimta rödd hans. Hér mætti leggjast í langar hugleiðingar um skil sjálfssögu og skáldsögu, hvernig sjálf skrifarans stýrir pennanum og frásögninni. En til hvers? Kjarni málsins er að hér er að finna leiðarlýsingu á ferð aftur í tímann þar sem ýmis brögð frásagnartækni eru nýtt til að draga fram skærar minningar af hversdagslegum lifnaðarháttum bæði í jaðri og miðju þéttbýlisins á árunum eftir stríð og fyrir viðreisn.

Óskar bætir við tveimur glæsilegum bogum frá öðrum tímum: sögu afa sinna og ömmu og þó sérstaklega örlögum Magnúsar Stefánssonar skálds sem eiga sér samsvörum í flandri hans sjálfs um landið í nýliðinni tíð. Í aðferð Óskars er að finna tærasta vinnslu textans þar sem dýrðin á hverdagslegri ásýnd hlutanna er dregin fáum ljósum dráttum. Það er tilgangslítil aðgerð að bera saman frásagnarhátt þeirra þriggja, Finnbogi hefur minnstan metnað til að vinna með verkið á skáldlegan hátt, heldur sig við hefðbundnar aðferðir þótt í þeim frásagnarhætti geymi hann margar örsögur. Ólafur smíðar sér ramma og dregur inn fyrir hann efnið. Byggingin er flóknust hjá Óskari þótt textavinnsla hans gangi lengst í hreinsun óþarfa burt, nýti með beinum hætti tilvitnanir í bréf og frásagnir annarra.

Allt eru þetta gefandi bækur og bregða skærum ljóma á örlög sem virðast okkur fjarri en standa samt ljóslifandi fyrir okkur eins og logandi teikn á vegg hvar við höfum verið, hvert við erum komin og kenna þannig auðmykt sem er hreinsandi á þessum skuldadögum sem við nú lifum.

Finnbogi Hermannsson
Ólafur Haukur Símonarson


Óskar Árni Óskarsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×