Lífið

Gósentíð hjá hnökkunum

Dr. Gunni skrifar
Danstónlistin vinsælli en rokkið. Svali á FM957 man tímana tvenna enda með elstu hnökkum landsins.
Danstónlistin vinsælli en rokkið. Svali á FM957 man tímana tvenna enda með elstu hnökkum landsins. Vísir/Pjetur
Það er gott að vera hnakki þessa dagana. Það hreinlega hrúgast inn hnakkatengdir stórviðburðir og hnakkarnir ráða ríkjum í auglýsingaheiminum með yfirtöku Merzedes Club og Eurobandsins. Rokkstöðin X-ið mælist varla í könnunum á meðan FM957 fitnar á fjósbitanum.

„Já, það er gósentíð og okkur gengur vel,“ segir Svali á FM. Hann man tímana tvenna enda elsti starfsmaður stöðvarinnar, hefur verið með síðan 1991. „X-ið var lengi álíka vinsælt og við í könnunum. Ég held að núna sé bara tímabil sem líkist því sem var í gangi sirka 1993 þegar Prodigy var að koma upp. Danstónlistin er einfaldlega vinsælli en rokkið núna. En þetta á örugglega eftir að breytast eins og gerðist á sínum tíma. Ég spái rokksveiflu aftur eftir tvö ár.“

Svali telur skýringuna líka geta legið í því að rokkarar og hnakkar eru ólíkar manngerðir. „Rokkarar eru jaðarhópur sem er erfiðara að selja auglýsingar. Og án auglýsinga er minna lagt í útvarpsstöðina þína. Rokkarar eru minna uppteknir af neyslunni. Þeir eru sjálfum sér nógir og láta ekki segja sér hvað er vinsælt eða hvað á að verða vinsælt næst. Áherslur okkar hóps eru á öðrum sviðum. Okkar fólki finnst bara þægilegt að vera matað á vinsælli músik en hefur í staðinn mun sterkari skoðanir á því hvar það á að kaupa jakkann sinn.“

Hlustendaverðlaun FM957 fara fram laugardaginn 3. maí. Mikið verður um dýrðir og þessa dagana getur almenningur kosið á milli flytjenda á heimasíðunni fm957.is. Þetta eru því mun lýðræðislegri verðlaun en Hin íslensku tónlistarverðlaun. Svali segir viðbrögðin „rosafín“.

Svo eru það tónleikarnir. Fedde Le Grand heldur uppi stuðinu í kvöld á Broadway. Þessi hollenski plötusnúður og lagahöfundur hefur átt þrjú topplög á FM957 og er því sannarlega au­fúsugestur. Næsti stórhnakki til að heiðra klakann er svo hinn sænski Eric Prydz en hann er frægastur fyrir „eróbikmyndbandið“ við smellinn Call on Me. Mercedez Club hafði þetta vídeó ekki síst í huga þegar „kynþokkafyllsta myndband í heimi“ var búið til. Eric verður á Broadway 17. maí.

Sem sagt, brjálæðislega góðir tímar fyrir hnakkana!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×