Erlent

Enn og aftur kraftaverk í Napólí -hjúh

Hinum trúuðu sýnt blóðið.
Hinum trúuðu sýnt blóðið.

Napólíbúar vörpuðu öndinni léttara í dag þegar þar gerðist enn einusinni það kraftaverk að þornað blóð heilags Genneros breyttist í vökva.

Sagan segir að þegar Rómverjar hjuggu af honum höfuðið árið 305 eftir Krist hafi kona frá Napólí safnað blóði hans í svamp og geymt það í glerflösku.

Blóðið þornaði

Undanfarin árhundruð hefur blóðið verið geymt í dómkirkjunni í Napólí. Blóðið þornaði eins og lög gera ráð fyrir.

En árið 1389 meira en 1000 árum eftir píslardauða Gennaros tóku menn eftir því að þurrt blóðið breyttist í vökva. Svo þornaði það aftur.

Ákveðnir dagar

Þá var hinsvegar farið að fylgjast með blóðinu og það kom í ljós að tvisvar á ári breytist þurrt blóðið í vökva. Það er 19. september sem er helgaður Gennaro og svo fyrsta laugardaginn í maí.

Þúsundir manna þyrpast þá í dómkirkjuna. Það gerðist einnig í morgun. Og mannfjöldinn fagnaði ákaft þegar erkibiskup borgarinnar tilkynnti að blóðið hefði breyst í vökva klukkan 07:45.

Það var svo gengið um með fagurlega skreytta flöskuna og mönnum sýnt kraftaverkið.

Miklar hörmungar

Og það er ekki nema von að fólkið fagni. Það hefur fimm sinnum komið fyrir að blóðið vökvaðist ekki. Og í öll skiptin fylgdu hörmungar í kjölfarið.

Meðal annars í nóvember 1980 þegar um 300 manns fórust í öflugum jarðskjálfta í suðurhluta landsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×