Fótbolti

Lehmann settur út úr liðinu fyrir að skreppa á Októberhátíðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jens Lehmann, markvörður VfB Stuttgart.
Jens Lehmann, markvörður VfB Stuttgart. Mynd/AFP

Jens Lehmann, markvörður VfB Stuttgart og fyrrum markvörður Arsenal og þýska landsliðsins, er kominn í vandræði hjá félagi sínu eftir að hafa skroppið á Október-hátíðina án leyfis.

Lehmann hefur verið settur út úr liðinu fyrir bikarleik á móti VfB Luebeck á miðvikudaginn en Markus Babbel, þjálfari Stuttgart, var langt frá því að vera ánægður með uppátæki Lehmann ekki síst þar sem að það sauð enn á honum eftir 0-2 tap Stuttgart á móti botnliði Köln um helgina.

„Ég og Horst Heldt (yfirmaður íþróttamála) munum ræða þetta mál á fimmtudaginn og eftir þann fund þá sjáum við hvað gerist næst," sagði Markus Babbel á heimasíðu Stuttgart en samkvæmt því gæti Jens Lehmann hugsanlega misst af fleiri leikjum.

„Heimsóknin á hátíðina var hluti af vinnu vegna góðgerðamáls og ég hafði skipulagt hana fyrir löngu. Félagið sætti sig samt ekki við þetta en ég sætti mig refsingu yfirstjórnar félagsins," sagði Jens Lehmann.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×