Bakþankar

Í naglabúðinni

Bergsteinn Sigurðsson skrifar

Fyrir rúmri viku var dagur íslenskrar tungu og upphófst af því hin árlega umræða um hnignun íslenskunnar. Á hverju ári sekkur íslensk tunga spönn dýpra ofan í kokið á okkur, ef marka má umræðuna. Miðað við áhyggjukórinn, sem hefur kyrjað svo lengi sem ég man eftir mér, ætti tungan reyndar að vera löngu komin ofan í vélindað, búin að leysast upp í meltingarveginum og spýtast út um rassgatið á okkur í kekkjóttum enskuslettum.

Þegar ég skautaði yfir bloggsvellið var ekki þverfótað fyrir sjálfskipuðum málverndurum sem töldu upp allar ambögurnar sem þeir heyrðu í fréttum og lásu í blöðunum; dýrkun við viðtengingarhátt, útskúfuð eignarföll og svívirt ypsílon. Það er auðvelt að detta í þennan gír og jafnvel ágæt skemmtun að sproksetja þá sem gera aulavillur á borð við að skrifa „langþráð meiðsl".

Þetta viðhorf getur aftur á móti keyrt um þverbak; að benda á málvillur er orðið að íþrótt sem gengur ekki út á velferð íslenskunnar heldur að sýna fram á andlega yfirburði umvandarans gagnvart málsóðanum. Einmitt í þessu viðhorfi er fall íslenskunnar falið. Það er gott og blessað að halda ambögum til haga, benda á það sem betur má fara og allt það. Gallinn er sá að þeir sem taka að sér það hlutverk gera það oft af drýldnislegu yfirlæti, þar sem umræðan snýst öðru fremur um góða máltilfinningu þeirra sjálfra.

Jú, þágufallssýki er ljót og þeir sem vinna með íslenskt mál, til dæmis fjölmiðlamenn, verða að huga vel að atvinnutæki sínu, halda því við og dengja svo það bíti. Ég held því aftur á móti fram að margt sé vel sagt og skrifað í íslenskum fjölmiðlum nú til dags; í greininni starfar aragrúi fólks sem hagnýtir sér litbrigði tungumálsins við dagleg störf og leggur mikla hugsun í að koma máli sínu skýrt og hnitmiðað til skila.

En þar sem við erum svo upptekin af hnignun tungunnar, einblínum við á hið neikvæða og blásum það út; fjörfiskur breytist í dauðakrampa. „Á íslensku má alltaf finna svar," yrkir Þórarinn Eldjárn. Í íslenskri dægurmálaumræðu er svo mikil áhersla lögð á að höggva eftir röngu svörunum að þau réttu fljúga oft fram hjá.

Ég legg til að þeir sem eru uggandi yfir stöðu íslenskunnar prófi eitt: Látið villurnar sem vind um eyru þjóta í eina viku eða svo en hlustið í staðinn eftir því sem vel er gert. Ég held að það myndi koma ánægjulega á óvart. Og hafið í huga orð Þorsteins frá Hamri: „Þú kaupir þér ekki nagla/ til að krossfesta sálir -/ þú þarft einúngis/ að hnykkja rétt á orðunum."








×