Innlent

AGS taldi álagspróf eftirlitsins strangt

Jónas Fr. Jónsson Segir óháðan erlendan fagaðila hafa gefið FME almennt jákvæða umsögn.
Jónas Fr. Jónsson Segir óháðan erlendan fagaðila hafa gefið FME almennt jákvæða umsögn.

Ýmsir aðilar sem fjölluðu um íslenska bankakerfið, meðal annars Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, töldu álagspróf Fjármálaeftirlitsins (FME) strangt. Þetta segir Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri FME, um það að rannsóknarnefnd Alþingis hafi álagsprófin nú til skoðunar.

Sagt var frá því í Fréttablaðinu í gær að danski ríkisendurskoðandinn væri á leið til landsins til að kynna rannsóknarnefndinni skýrslu sem nota ætti til grundvallar málsókn á hendur danska fjármálaeftirlitinu vegna aðgerðaleysis þess í aðdraganda falls Hróarskeldubanka.

Jónas var forstjóri FME árin fyrir hrunið. Hann segir álagsprófin ekki vera heilbrigðisvottorð fyrir bankana heldur aðferð við að prófa hvernig bankar standist tiltekin áföll. Með prófinu sem hefur verið í umræðunni og var gert skömmu fyrir hrunið í fyrra hafi áhrif tiltekinna áfalla á eiginfjárstöðu bankanna verið könnuð og það hafi byggt á opinberum reglum.

Álagsprófið hafi hins vegar ekki prófað lausafjárstöðu, en það hafi fyrst og fremst verið frost á lausafjármörkuðum sem orsakaði hrunið. Nú séu fjármálayfirvöld og bankar um allan heim að endur­skoða regluverk sitt, meðal annars með tilliti til þessa.

Jónas bendir að síðustu á að óháður erlendur fagaðili hafi skilað úttekt á framkvæmd eftirlits á Íslandi í mars og að niðurstaðan hafi almennt verið jákvæð í garð FME.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×