Innlent

Koma Sigríði Benediktsdóttur til varnar

Rannsóknarnefndin.
Rannsóknarnefndin.

Alþingi hefur nú til umfjöllunar beiðni um að Sigríður Benediktsdóttir hætti í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið vegna ummæla hennar í skólablaði Yale háskóla. Fjórir íslenskir hagfræðingar telja að brottvikning hennar myndi skaða starf nefndarinnar.

Í rannsóknanefnd Alþingis um bankahrunið. sitja Páll Hreinsson, hæstaréttardómari sem er formaður nefndarinnar, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Sigríður Benediktsdóttir, prófessor í hagfræði við Yale háskóla í Bandaríkjunum.

Alþingi hefur nú tekið til umfjöllunar beiðni Jónasar Fr. Jónssonar, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, um að Sigríður Benediktsdóttir hætti í nefndinni vegna ummæla hennar í skólablaði Yale háskóla. Skólablaðið hafði eftir Sigríði í janúar á þessu ári að óhófleg græðgi í bankakerfinu og brestir í umgjörð eftirlitskerfisins hafi átt stóran þátt í hruninu. Þeir sem gagnrýna ummælin hafa bent á að með þeim sýni hún fram á að hún sé hlutdræg við rannsókn á bankahruninu.

En nú hafa fjórir virtir íslenskir hagfræðingar stigið fram á sjónarsviðið og haldið því fram að brottvikning Sigríðar myndi skaða starf nefndarinnar. Gylfi Zoega og Jón Daníelsson, segja í grein í Morgunblaðinu í dag að Sigríður sé eini nefndarmaðurinn með sérþekkingu á fjármálamörkuðum og hagfræði. Þeir telja að ef hún verði látin hætta muni það trufla og tefja störf nefndarinnar og varpa skugga á endanlega niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Hagfræðingarnir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson taka undir þetta. Þeir segja í grein í Fréttablaðinu í dag að það myndi skaða starf nefndarinnar verulega að þrýsta Sigríði úr henni. Þá telja þeir að ummæli hennar í viðtali við Yale skólablaðið gefi ekki tilefni til þess að draga óhlutdrægni hennar í efa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×