Íslenski boltinn

Hársbreidd frá því að gera jafntefli við besta lið í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna. Mynd/Rósa

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari var ánægður með frammistöðu íslenska landsliðsins gegn Bandaríkjunum á Algarve-bikarnum í dag en hann var að sjálfsögðu svekktur með að hafa fengið á sig mark í blálokin.

"Þetta var svo góður leikur taktískt fyrir okkur og líka það að finna að við eigum í fullu tré við lið af þessum kalíber í 90 mínútur. Það er frábært fyrir okkur og gefur okkur þvílíkt sjálfstraust fyrir framhaldið," sagði Sigurður Ragnar eftir leikinn.

"Við héldum skipulaginu mjög vel, lokuðum svæðum og þegar þær komu inn á okkar svæði þá pressuðum við á þær. Liðið náði líka að halda boltanum ágætlega þegar við unnum hann. Stelpurnar þorðu að hafa boltann og við fengum slatta af hornum og aukaspyrnum," sagði Sigurður Ragnar og bætti við. "Það var ekki eins og við höfum pakkað í vörn."

Sigurður Ragnar horfir björtum augum á næstu leiki liðsins á mótinu en síðasti leikurinn í riðlinum verður gegn Danmörku á mánudaginn. Sigurvegarinn í þeim leik spilar um 3. sætið í Algarve-bikarnum.

"Þessi leikur veitir okkur sjálfstraust því þetta á að heita besta lið í heimi og við vorum hársbreidd frá því að gera jafntefli við þær. Vonandi höldum við áfram að bæta okkur sem lið," sagði landsliðsþjálfarinn að lokum.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×