Innlent

Stjórnmálamenn fengu óeðlilega fyrirgreiðslu úr bönkum

Mörg dæmi eru um að stjórnmálamenn, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, aðilar tengdir þeim og forsvarsmenn lífeyrissjóða, hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu í bankakerfinu. Þetta var kallað vildarkjarakerfið eða "special deal".

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að fyrir bankahrunið hafi ýmsir stjórnmálamenn, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn, fengið óeðlilega fyrirgreiðslu hjá gömlu viðskiptabönkunum. Í þessum hópi var einnig fólk sem tengdist stjórnmálamönnum og forsvarsmenn lífeyrissjóða.

Í sumum tilvikum var um að ræða tugmilljóna króna lán til þess að kaupa hlutabréf, meðal annars í bönkunum sjálfum, án þess að leggja fram nein veð. Slík fyrirgreiðsla var ekki í boði fyrir almenning.

Þetta var í hópi banka- og stjórnmálamanna kallað "special deal" sem mætti kalla vildarkjör, eða vildarkjarakerfi stjórnmálamanna. Stundum þurfti einungis eitt símtal til þess að fá fyrirgreiðslu af þessu tagi. Ef vel gekk og hlutabréf hækkuðu í verði myndaðist eigið fé og menn högnuðust, en ef illa gekk og verð hlutabréfa lækkaði þurftu þeir ekki að taka skellinn.

Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið rannsakar meðal annars hvort stjórnmálamenn hafi notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu í bankakerfinu, eins og fréttastofan hefur áður greint frá. Rannsóknanefndin hefur heimild til að keyra kennitölur stjórnmálamanna í gegnum bankakerfið til að rekja slóð fjármuna. Bankaleynd gildir ekki um þá aðgerð.

Hins vegar gildir rík bankaleynd í Lúxemborg, en talið er að hluti af þessum viðskiptum hafi farið fram í gegnum dótturfélög íslensku viðskiptabankanna þar. Það torveldar starf Rannsóknarnefndarinnar, sem hefur enn ekki heimild til að fá þær upplýsingar sem hún óskar eftir að fá þaðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×