Fótbolti

Toni ætlar að sanna sig með varaliði Bayern München

Ómar Þorgeirsson skrifar
Luca Toni.
Luca Toni. Nordic photos/AFP

Ítalski landsliðsframherjinn Luca Toni hefur til þessa ekki fengið tækifæri með Bayern München eftir að knattspyrnustjórinn Louis van Gaal tók við sem knattspyrnustjóri félagsins í sumar en Toni var þá að stíga upp úr erfiðum meiðslum.

Eins og staðan er núna virðist hinn 32 ára gamli Toni vera fyrir aftan þá Thomas Müller, Ivica Olic, Mario Gomez, Arjen Robben og Miroslav Klose í goggunarröðinni og hefur því ítrekað verið orðaður við félagaskipti frá Bayern München og félög á borð við AC Milan og Roma sögð áhugasöm á að fá hann til sín þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar.

Toni hefur hins vegar líst því yfir að hann ætli að gera allt sem í sínu valdi standi til þess að festa sig í sessi á Allianz Arena-leikvanginum og er tilbúinn að sýna hvað hann getur með varaliði félagsins.

„Ég þarf að gera allt til þess að fá að spila og ef það þýðir að ég spili fyrir varaliðið þá verður bara að hafa það. Það er klárlega betra en að spila með varaliðinu og reyna að sanna sig þannig heldur en að fá ekkert að spila," segir Toni sem hefur skorað 51 mark í 75 leikjum fyrir Bæjara síðan hann kom frá Fiorentina árið 2007.

Toni varð ennfremur heimsmeistari með Ítalíu á HM 2006 og er væntanlega líka umhugað að vera valinn í landsliðshóp Ítalíu fyrir lokakeppni HM 2010.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×