Innlent

Engir minnispunktar af 18 fundum Baldurs

Ráðuneytið átti enga minnispunkta í fórum sínum til að senda sem svar um beiðni Rannsóknarnefndar Alþingis um gögn vegna skráðra funda ráðuneytisstjórans með Seðlabanka, forsætisráðuneyti og Fjármálaeftirliti.
Fréttablaðið/GVA
Ráðuneytið átti enga minnispunkta í fórum sínum til að senda sem svar um beiðni Rannsóknarnefndar Alþingis um gögn vegna skráðra funda ráðuneytisstjórans með Seðlabanka, forsætisráðuneyti og Fjármálaeftirliti. Fréttablaðið/GVA

Engir minnispunktar eru til í fjármálaráðuneytinu um átján fundi, sem haldnir voru frá janúar 2007 til október 2008 og Baldur Guðlaugsson þáverandi ráðuneytisstjóri sat, ýmist með aðilum frá Seðlabankanum, ráðherrum eða fjármálaeftirliti.

Þetta kemur fram í yfirliti sem Fréttablaðið hefur undir höndum yfir gögn sem fjármálaráðuneytið sendi rannsóknarnefnd Alþingis.

Sjálf bréfaskipti ráðuneytisins og rannsóknarnefndarinnar fengust hins vegar ekki afhent.

Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu eru engar skráðar reglur í gildi um hvenær embættismenn skrá minnispunkta um fundi sem þeir taka þátt í. Minnispunktar eru stundum skráðir og stundum ekki. Í þessum tilvikum hafi mat Baldurs ráðið.

Meðal fundanna átján sem ekki voru skráðir voru fundir sem haldnir voru 27. til 28. september í fyrra um stöðuna á fjármálamörkuðum og kaup ríkisins á hlut í Glitni.

Ekki voru skráðir minnispunktar af fundi „nokkurra ráðherra um viðbrögð við spurningum í bréfi breskra stjórnvalda um aðkomu ríkisins að innistæðutryggingum“ sem haldinn var 18. ágúst 2008.

Þá voru heldur ekki skráðir minnispunktar „nokkurra ráðherra með seðlabankastjórum“ í forsætis­ráðuneytinu 18. mars og 7. maí 2008.

Ómar H. Kristmundsson, dósent í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, sagði í samtali við Fréttablaðið að það skipti máli í stjórnsýslu að skrá allar upplýsingar, sem gætu haft áhrif á málsmeðferð.

„Það eru þá góðir stjórnsýsluhættir að skrá minnispunkta,“ segir Ómar. „Þetta eru augljóslega mikilvæg mál þar sem menn geta ekki treyst á minni sitt og þess vegna verða menn að skrá minnis­punkta.“- pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×