Geir Haarde forsætisráðherra er meðal 25 nafna sem breska blaðið The Guardian segir að beri ábyrgð á fjármálakreppunni sem nú geysar í heiminum.
Efst á listanum er nafn Alan Greenspan fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna.
En hvað stjórnmálamenn varðar er Geir Haarde í hópi hinna þekktari. Á listanum má finna Bill Clinton og George Bush fyrrum forseta Bandaríkjanna. Og Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands er einnig á listanum.
Af bankamönnum má nefna sir Fred "The Shred" Goodwin fyrrum bankastjóra Royal Bank of Scotland og Richard Fuld fyrrum bankastjóra Lehman Brothers.
Þá eru báðir helstu ofurfjárfestar heimsins á listanum, þeir Warren Buffett og George Soros.