Erlent

Safna liði gegn vágesti í Kaupmannahöfn

Óli Tynes skrifar
Lars Lökke setur Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn.
Lars Lökke setur Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. Mynd/AP

Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur sagði við setningu Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að ekki færri en 110 þjóðarleiðtogar komi til ráðstefnunnar sem stendur í hálfan mánuð.

Það sé til marks um áður óþekktan vilja til þess að takast á við þann vágest sem hlýnun jarðar sé.

Lökke dró enga dul á það að samningaviðræðurnar yrðu gríðarlega erfiðar og hann gerði sér fulla grein fyrir að verkefnið væri risavaxið.

Afleiðingar loftslagsbreytinganna yrðu hinsvegar verri með hverjum deginum sem líður og það væri skylda þáttakenda að finna langtímalausn á vandanum.

Það væri hægt ef pólitískur vilji væri til staðar. Hann sagði að dagana sem ráðstefnan stæði væri kannski rétt að breyta nafni Kaupmannahafnar og kalla hana Vonarhöfn.

Alls sækja ráðstefnuna fimmtán þúsund fulltrúar frá 192 þjóðríkjum.

Helsta umræðuefnið verður að komast að niðurstöðu um það hversu mikið ríki þurfi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það samkomulag sem ráðstefnan getur af sér kemur í stað Kyoto-bókunarinnar frá 1997.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sækir ráðstefnuna fyrir Íslands hönd. Hún segir í viðtölum við fjölmiðla að hún muni leggja fram tillögu um að Ísland verði í fararbroddi við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Hún hyggst ekki fara fram á frekari undanþágur fyrir Íslands hönd og segir að við verðum að breyta lifnaðarháttum og lífsstíl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×