KR tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna með sigri á Keflavík suður með sjó, 71-62.
Þar með vann KR einvígið 3-0 en þessi lið mættust einnig í úrslitum bikarkeppninnar þar sem KR fór með sigur af hólmi.
Keflvíkingar byrjuðu betur í kvöld og komust í fjögurra stiga forystu í hálfleik, 28-24. KR náði svo yfirhöndinni í þriðja leikhluta og náði svo skömmu fyrir leikslok tíu stiga forystu, 64-54. Keflavík náði að minnka muninn í fimm stig, 64-59, þegar rúm mínúta var eftir af leiknum en nær komst liðið ekki.
Hildur Sigurðardóttir var sem fyrr atkvæðamikil í liði KR og skoraði átján stig. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir skoraði tólf stig og systurnar Sigrún Sjöfn og Guðrún Ámundadætur tíu stig hvor..
Hjá Keflavík var TaKesha Watson með sautján stig en hún var fengin sérstaklega til liðsins skömmu áður en úrslitakeppnin hófst.
Birna Valgarðsdóttir skoraði fimmtán stig og Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir ellefu, rétt eins og Pálína Gunnlaugsdóttir.
Körfubolti