Lófafylli af fyrirheitum Guðmundur Andri Thorsson skrifar 18. maí 2009 06:00 Við horfðum á Evróvisjón og á eftir fóru krakkarnir út á töfrastaðinn sem er skammt frá og komu til baka með fjögurra laufa smára, fimm laufa smára - og ein hafði meira að segja fundið sex laufa smára. Þau komu til baka með lófafylli af fyrirheitum. Svo að allar óskir megi rætast. Því að stundum koma líka dagar sem rætast: sumarblíða sem engan endi ætlar að taka í mildi sinni og örlæti á sólargeisla, himinninn heiður, hafið skínandi, fjöllin tindra í fjarska og grasið ilmar… Og heimurinn er stór og góður við okkur og okkur virðast allir vegir færir, bara ef við stígum rétt til jarðar núna… Hún var í bláum kjól sem ég er því miður ólæs á því ég kann ekki táknfræði kjóla jafn vel og ég ætti að gera en ég leyfi mér samt að giska á að hann kunni að hafa snúist um töfrastund fátæku stúlkunnar. Hann var blár eins og fjarskinn, með fjöðrum sem minna á flug til ævintýrahallanna þar sem höfrungarnir kátu leika sér allan daginn og þangað sem seglskipin sigla þöndum seglum. Hún var auðvitað glæsileg og að sjálfsögðu geislandi og skilaboðin sem lagið sendi svo ísmeygilega voru aldrei áréttuð í sjálfum flutningnum þar sem ævintýrið, bláminn og leikurinn ríktu. Þess þurfti ekki. Þau blöstu við.Hvað hef ég gert?Fulltrúi þjóðar á svona leikum er einmitt fulltrúi þjóðar; einhvers konar aðalsamningamaður í flóknum ósögðum samningaviðræðum um stað í samfélagi þjóðanna: sjáið mig/virðið mig/óttist mig/girnist mig/aumkið mig. Stundum er sendur einhver sem á að ryðja sér braut áfram; stundum einhver sem á að impónera með vandlega sviðsettum ögrunaraðgerðum; stundum eitthvað annað.Popplög eru alltaf um eitthvað annað. Sérstaklega lög um ástina - þau eru sjaldnast um ástina. Is it true? fjallar þannig formlega um ástarsamband sem farið hefur út um þúfur og annar aðili þess reynir eftir á að átta sig á því sem gerst hefur og hvar sökin liggur. En lagið er auðvitað ekki um það. Það sýnir ráðvilltan ungling sem kemur fyrir okkur „daginn eftir" og hefur gert eitthvað óheyrilega hræðilegt af sér. Og spyr: Getur það verið? Hvað hef ég gert? Hvað kom fyrir mig? Er þetta satt? Varð mér á? Klúðraði ég öllu? Er allt mér að kenna? Eða plataðir þú mig? Og geturðu nokkurn tímann fyrirgefið mér allt þetta sem gerðist?Er þetta satt? Er þetta virkilega svona slæmt? Og svarið er: Já því miður, svona slæmt. Þjóðin ber hópsök, og hópsök er eðli sínu samkvæmt ævinlega ómakleg gagnvart hverjum og einum. Þjóðin lifði um efni fram eins og það er kallað. Það táknar ekki að hvert og eitt okkar hafi lifað um efni fram, heldur hitt að vissir einstaklingar gerðu það í nafni þjóðarinnar, skópu gjaldeyrishalla með brjálæðislegum peningaumsvifum svo að Íslendingum er nú ekki treyst af alþjóðasamfélaginu til að að fara með fé sjálfir: himinhátt vaxtastigið sem erlendir tilsjónarmenn og landstjórar AGS standa fyrir er til vitnis um að þeir líta svo á að ekki megi lána Íslendingum fé, hvorki einstaklingum né fyrirtækjum - það muni óðara fara í einhverja vitleysu. Iðrun og auðmýktEr þetta satt? Já, því miður: svona slæmt. Þið fluguð hærra en þið komust, seildust eftir meiru en þið réðuð við, fenguð meira fé að láni en þið reyndust borgunarmenn fyrir og þið eruð ekki fær um að fara með fé. Þið hafið fyrirgert rétti ykkar til sjálfstæðis því að þið reyndust ekki kunna fótum ykkar forráð þegar á reyndi. Þannig lítum við út í augum heimsins. Við súpum nú seyðið af Sjálfstæðisárunum átján þegar vaðið var um veraldarrann af engri fyrirhyggju en ærnum þótta.Hún stóð þarna í bláum og fiðruðum kjól, fátæka stúlkan sem átti þessa töfrastund, og lagði hönd á hjartastað áður en hún opnaði faðminn til að hleypa út sorgunum og heimurinn fann að iðrun hennar og auðmýkt var sönn og sök okkar gufaði upp með hverju orði sem rann fram af hennar munni, sveif burt með seglskipunum stóru í bláan fjarskann þar sem höfrungarnir dansa við kátar öldur - og vitanlega gat heimurinn ekki annað en fyrirgefið allt það sem á undan fór á vegum þeirra sem hún fór nú með umboð fyrir, aðalsamningamaðurinn Jóhanna unga á meðan eldri Jóhanna sat heima þegjandaleg og starfsöm að greiða úr óreiðunni. Á eftir fóru svo krakkarnir út í eilíft sumarkvöldið og komu til baka með lófafylli af fyrirheitum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Með baunabyssu í kennaraverkfalli Ólafur Hauksson Skoðun Vanvirðing við einkaframtakið og verðmætasköpun Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun Það þarf meiri töffara í okkur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Á að banna rauða jólasveininn? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Samfylkingin ætlar ekki að hækka tekjuskatt Alma D. Möller Skoðun Verðum að rannsaka hvað gerðist í Covid Hildur Þórðardóttir Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Unga fólkið og frjósemi María Rut Baldursdóttir,Sigríður Auðunsdóttir Skoðun
Við horfðum á Evróvisjón og á eftir fóru krakkarnir út á töfrastaðinn sem er skammt frá og komu til baka með fjögurra laufa smára, fimm laufa smára - og ein hafði meira að segja fundið sex laufa smára. Þau komu til baka með lófafylli af fyrirheitum. Svo að allar óskir megi rætast. Því að stundum koma líka dagar sem rætast: sumarblíða sem engan endi ætlar að taka í mildi sinni og örlæti á sólargeisla, himinninn heiður, hafið skínandi, fjöllin tindra í fjarska og grasið ilmar… Og heimurinn er stór og góður við okkur og okkur virðast allir vegir færir, bara ef við stígum rétt til jarðar núna… Hún var í bláum kjól sem ég er því miður ólæs á því ég kann ekki táknfræði kjóla jafn vel og ég ætti að gera en ég leyfi mér samt að giska á að hann kunni að hafa snúist um töfrastund fátæku stúlkunnar. Hann var blár eins og fjarskinn, með fjöðrum sem minna á flug til ævintýrahallanna þar sem höfrungarnir kátu leika sér allan daginn og þangað sem seglskipin sigla þöndum seglum. Hún var auðvitað glæsileg og að sjálfsögðu geislandi og skilaboðin sem lagið sendi svo ísmeygilega voru aldrei áréttuð í sjálfum flutningnum þar sem ævintýrið, bláminn og leikurinn ríktu. Þess þurfti ekki. Þau blöstu við.Hvað hef ég gert?Fulltrúi þjóðar á svona leikum er einmitt fulltrúi þjóðar; einhvers konar aðalsamningamaður í flóknum ósögðum samningaviðræðum um stað í samfélagi þjóðanna: sjáið mig/virðið mig/óttist mig/girnist mig/aumkið mig. Stundum er sendur einhver sem á að ryðja sér braut áfram; stundum einhver sem á að impónera með vandlega sviðsettum ögrunaraðgerðum; stundum eitthvað annað.Popplög eru alltaf um eitthvað annað. Sérstaklega lög um ástina - þau eru sjaldnast um ástina. Is it true? fjallar þannig formlega um ástarsamband sem farið hefur út um þúfur og annar aðili þess reynir eftir á að átta sig á því sem gerst hefur og hvar sökin liggur. En lagið er auðvitað ekki um það. Það sýnir ráðvilltan ungling sem kemur fyrir okkur „daginn eftir" og hefur gert eitthvað óheyrilega hræðilegt af sér. Og spyr: Getur það verið? Hvað hef ég gert? Hvað kom fyrir mig? Er þetta satt? Varð mér á? Klúðraði ég öllu? Er allt mér að kenna? Eða plataðir þú mig? Og geturðu nokkurn tímann fyrirgefið mér allt þetta sem gerðist?Er þetta satt? Er þetta virkilega svona slæmt? Og svarið er: Já því miður, svona slæmt. Þjóðin ber hópsök, og hópsök er eðli sínu samkvæmt ævinlega ómakleg gagnvart hverjum og einum. Þjóðin lifði um efni fram eins og það er kallað. Það táknar ekki að hvert og eitt okkar hafi lifað um efni fram, heldur hitt að vissir einstaklingar gerðu það í nafni þjóðarinnar, skópu gjaldeyrishalla með brjálæðislegum peningaumsvifum svo að Íslendingum er nú ekki treyst af alþjóðasamfélaginu til að að fara með fé sjálfir: himinhátt vaxtastigið sem erlendir tilsjónarmenn og landstjórar AGS standa fyrir er til vitnis um að þeir líta svo á að ekki megi lána Íslendingum fé, hvorki einstaklingum né fyrirtækjum - það muni óðara fara í einhverja vitleysu. Iðrun og auðmýktEr þetta satt? Já, því miður: svona slæmt. Þið fluguð hærra en þið komust, seildust eftir meiru en þið réðuð við, fenguð meira fé að láni en þið reyndust borgunarmenn fyrir og þið eruð ekki fær um að fara með fé. Þið hafið fyrirgert rétti ykkar til sjálfstæðis því að þið reyndust ekki kunna fótum ykkar forráð þegar á reyndi. Þannig lítum við út í augum heimsins. Við súpum nú seyðið af Sjálfstæðisárunum átján þegar vaðið var um veraldarrann af engri fyrirhyggju en ærnum þótta.Hún stóð þarna í bláum og fiðruðum kjól, fátæka stúlkan sem átti þessa töfrastund, og lagði hönd á hjartastað áður en hún opnaði faðminn til að hleypa út sorgunum og heimurinn fann að iðrun hennar og auðmýkt var sönn og sök okkar gufaði upp með hverju orði sem rann fram af hennar munni, sveif burt með seglskipunum stóru í bláan fjarskann þar sem höfrungarnir dansa við kátar öldur - og vitanlega gat heimurinn ekki annað en fyrirgefið allt það sem á undan fór á vegum þeirra sem hún fór nú með umboð fyrir, aðalsamningamaðurinn Jóhanna unga á meðan eldri Jóhanna sat heima þegjandaleg og starfsöm að greiða úr óreiðunni. Á eftir fóru svo krakkarnir út í eilíft sumarkvöldið og komu til baka með lófafylli af fyrirheitum.