Erlent

Bandaríkjamenn styðja Fogh Rasmussen

Guðjón Helgason skrifar
Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.
Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. MYND/AP

Bandaríks stjórnvöld ætla að styðja Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, í embætti framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Þetta fullyrðir Jim Hoagland, Pulitzer verðlaunaður dálkahöfundur, á vef bandaríska dagblaðsins Washington Post í dag.

Hoagland hefur tvívegis holtið Pulitzer verðlaunin margfrægu fyrir skrif sín. Í dálk á vef Washington Post í morgun fjallar hann um stefnu Bandaríkjamanna og Atlantshafsbandalagsins í Afganistan. Í lok greinarinnar segir hann að James Jones, þjóðaröryggisráðgjafi Baracks Obama Bandaríkjaforseta, hafi flogið á laun til Sviss fyrr í þessum mánuði til fundar við Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, en Fogh Rasmussen var hafi þá verið þar í fríi.

Þar hafi Jones greint forsætisráðherranum frá því að bandarísk stjórnvöld styddu hann í embætti framkvæmdastjóra NATO. Hollendingurinn Jaap de Hoop Scheffer hefur verið framkvæmdastjóri bandalagsins síðan í janúar 2004 þegar hann tók við af Robertson lávarði. De Hoop Scheffer lætur af embætti um mitt þetta ár.

Arftaki hans verður kosinn á leiðtogafundi NATO sem haldinn verður bæði í Frakklandi og Þýskalandi í byrjun apríl en í ár eru 60 ár liðin frá stofnun NATO.

Fogh Rasmussen hefur verið sterklega orðaður við embættið og nýtur til þess víðtæks stuðnings frá aðildarríkjunum, þar á meðal stuðningi Breta, Frakka og Þjóðverja.

Tyrkir eru hins vegar sagðir mjög mótfallnir að danski forsætisráðherrann taki við. Það mun vera vegna þess að Danir hafa leyft kúrdísku sjónvarpsstöðinni ROJ að starfa í Danmörku en hún er útlæg í Tyrklandi þar sem Tykir telja hana styðja hryðjuverkamenn úr röðum PKK. Einnig eru Tyrkir sagðir reiðir danska forsætisráðherranum vegna Múhameðsteikninganna svokölluðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×