Fótbolti

O'Neill hvílir átta byrjunarliðsmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hvorki Gabriel Agbonlahor né Ashley Young verða með Villa í Moskvu.
Hvorki Gabriel Agbonlahor né Ashley Young verða með Villa í Moskvu. Nordic Photos / Getty Images

Martin O'Neill, knattspyrnustjóri Aston Villa, hefur ákveðið að hvíla átta byrjunarliðsmenn sem fara því ekki með liðinu til Moskvu þar sem það mætir CSKA Moskvu í UEFA-bikarkeppninni á fimmtudagskvöldið.

„Það skiptir öllu fyrir okkur að komast í Meistaradeildina," sagði O'Neill en sem stendur er Aston Villa í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Fjögur efstu liðin vinna sér þátttökurétt í Meistaradeildinni.

Þeir Gareth Barry, Brad Friedel, Emile Heskey, James Milner, Ashley Young, Gabriel Agbonlahor, Carlos Cuellar og Stiliyan Petrov verða allir eftir heima í Birmingham.

Villa tapaði fyrir Chelsea, 1-0, um helgina og datt þá niður í fjórða sæti deildarinnar. Liðið gerði þar áður 1-1 jafntefli við CSKA Moskvu á heimavelli.

„Við erum ekki með jafn stóran leikmannahóp og Manchester United, Liverpool, Chelsea og Arsenal. Ég er ekki með minnimáttarkennd - ég er bara raunsær."

„Það var enginn leikmaður sem notaði þá afsökun að við vorum þreyttir eftir leikinn gegn CSKA þegar við töpuðum fyrir Chelsea. En það mun ég gera nú."

„Kaldhæðnin er sú að við gerðum allt sem í okkar valdi var mögulegt til að komast inn í Evrópukeppnina í fyrra. Við verðum að reyna að gera stuðningsmönnum okkar til geðs og ég er viss um að þeir telja líka að sæti í Meistaradeildinni sé hinn helgi gral í okkar augum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×