Fótbolti

AC Milan úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Claudio Pizarro var hetja Werder Bremen í kvöld.
Claudio Pizarro var hetja Werder Bremen í kvöld. Nordic Photos / AFP
AC Milan féll nokkuð óvænt úr leik í 32-liða úrslitum UEFA-bikarkeppninnar í kvöld er liðið gerði 2-2 jafntefli við Werder Bremen á heimavelli í kvöld.

Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli í Þýskalandi og komst því Bremen áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Andrea Pirlo kom AC Milan yfir með marki úr vítaspyrnu á 26. mínútu. Vítaspyrnan var dæmd eftir að varnarmaður Bremen handlék knöttinn eftir aukaspyrnu David Beckham.

Pato tvöfaldaði svo forystu Milan með glæsilegu markið á 33. mínútu. Hann átti bylmingsskot að marki eftir góðan sprett á vinstri kantinum sem hafnaði í netinu.

Claudio Pizarro var hins vegar hetja Bremen í síðari hálfleik. Hann skoraði bæði mörk liðsins með tíu mínútna millibili, á 68. og 78. mínútu og náði þar með að jafna metin og tryggja sína menn áfram í keppninni.

Þetta voru nokkuð sanngjörn úrslit þar sem að Bremen var síst lakari aðilinn í leiknum og átti mörg góð færi í leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×