Fótbolti

Fimm á ferðinni í Frakklandi á fimmtudag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jakobsson.
Kristinn Jakobsson. Mynd/Vilhelm

Fimm íslenskir dómarar munu sjá um dómgæsluna í leik Toulouse frá Frakklandi og Partizan Belgrad frá Serbíu sem fram fer í Evrópudeildinni á fimmtudaginn. Kristinn Jakobsson dæmir leikinn.

Þetta er þriðji leikurinn sem Kristinn Jakobsson dæmir í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA í vetur en hann dæmdi einnig leik Anderlecht og Ajax 1. október og svo leik Hapoel Tel Aviv á móti Rapid Wien 22. október.

Sigurður Óli Þorleifsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson verða aðstoðardómarar Kristins í leiknum, Jóhannes Valgeirsson verður fjórði dómari og aukaaðstoðardómarar eru síðan Magnús Þórisson og Þorvaldur Árnason. Þeir stilla sér upp fyrir aftan mörkin en það er verið að prófa fimm dómara kerfið í Evrópudeildinni í vetur.

Toulouse og Partizan eru tvo neðstu liðin í J-riðlinum í Evrópudeild UEFA. Partizan hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum til þessa en Toulouse hefur náð í fjögur stig. Toulouse tapaði síðasta heimaleik sínum 0-2 á móti Shakhtar Donetsk.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×