Baldvin Þorsteinsson, hinn magnaði hornamaður Valsmanna, er fjarri góðu gamni í kvöld. Hann fór í aðgerð vegna axlarmeiðsla fyrir mánuði síðan og má ekki æfa næsta hálfa árið.
Norðanmaðurinn situr þó ekki auðum höndum í Vodafonehöllinni því hann hefur tekið að sér tónlistarstjórn. Hann er maðurinn sem kemur með réttu stemningstónlistina fyrir liðið.
Leysir hann af hólmi Jóhannes Lange sem hefur lengi stýrt tónlistinni í húsinu við misjafnar undirtektir.
"Ég er mest í dansvænu rokki, svona ungæðislegt. Það er mun skemmtilegra en það sem Jói bauð upp á. Hann var bara með einhverja Eurovision-tónlist sem gengur ekki," sagði Baldvin og hækkaði svo almennilega í græjunum.
Oddaleikur Vals og HK hefst klukkan 19.30. Áhorfendur eru þegar byrjaðir að streyma í húsið og von á mikilli stemningu.
Hægt er að horfa á leikinn beint á netinu hér.