Íslenski boltinn

Að verða búnar að spila saman í 1000 mínútur í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Jónsdóttir og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir.
Katrín Jónsdóttir og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir. Mynd/Vilhelm

Knattspyrnuþjálfarar eru flestir á því að grunnur að góðu liði sé að hafa stöðugleika í miðri vörninni, trausta og skynsama leikmenn sem skila alltaf sínu. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, er engin undantekning á þeirri reglu enda eru miðvarðarpar kvennalandsliðsins að ná skemmtilegum áfanga gegn Dönum í dag.

Þær Katrín Jónsdóttir og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir eru að sjálfsögðu í byrjunarliði íslenska kvennalandsliðsins sem mætir Dönum á eftir í lokaleik sínum í riðlakeppni Algarve-bikarsins. Þær hafa nefnilega byrjað inn á í öllum 23 leikjunum undir stjórn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar.

Þær Katrín og Guðrún Sóley hafa gert meira en að byrja alla leiki frá og með 2007 því þær hafa spilað nánast hverja eina einustu mínútu í þessum 23 leikjum. Guðrún Sóley hefur aðeins misst úr 44 af 2070 mínútum og Katrín hefur aðeins verið útaf í 85 mínútur.

Hvorugri þeirra hefur verið skipt útaf í síðustu ellefu landsleikjum eða síðan Sigurður Ragnar tók þær báðar af velli í lokin í 3-0 sigri á Portúgal á Algarve-bikarnum á síðasta ári.

Frá þeim tíma hafa þær stöllur spilað hlið við hlið í íslensku vörninni í 990 mínútur í röð og ná því þeim árangri að spila þúsund mínútur saman í röð í upphafi leiks Íslands og Danmerkur á eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×