„Þegar vetur gengur í garð mun fjölskyldufólk geta boðið börnunum sínum upp á hlýrri barnalaug," segir Kjartan Magnússon, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Þil úr ryðfríu stáli verður sett upp í Vesturbæjarlauginni í sumar til að skilja að fullorðinslaug og barnalaug.
Í nokkurn tíma hefur verið kvartað yfir kulda í barnalauginni. „Laugarnar eru það lítið aðskildar að þegar hitinn er hækkaður barnamegin kvarta þeir fullorðnu," segir Kjartan.
Líklegt er að kostnaður við framkvæmdirnar verði um fimm milljónir króna. Lauginni verður lokað í nokkra daga meðan á þeim stendur.

