Erlent

Sagði af sér vegna glappaskots

Guðjón Helgason skrifar
Forsíða bresks blaðs í dag sem sýnir Bob Quick, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóra Scotland Yard, á leið á fund með Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands í Downing-stræti 10 í gær. Á myndinni er skjalið umrædda.
Forsíða bresks blaðs í dag sem sýnir Bob Quick, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóra Scotland Yard, á leið á fund með Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands í Downing-stræti 10 í gær. Á myndinni er skjalið umrædda. MYND/APTN

Bob Quick, aðstoðarlögreglustjóri Scotland Yard í Bretlandi, sagði í morgun af sér eftir glappaskot sem talið er að hafi orðið til að flýta aðgerð gegn grunuðum al-Kaída liðum í Bretlandi. Quick stýrði aðgerðum Scotland Yard gegn hryðjuverkamönnum og samtökum. Hann kom til fundar við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, í Downing stræti 10 í gærmorgun. Var hann þar með gögn um rannsókn á meintum liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna og var texti á einu skjalinu sýnilegur á ljósmynd sem tekin var af Quick á leið inn á fundinn.

Örfáum klukkustundum eftir að myndin birtist í breskum fjölmiðlum fór lögregla af stað og handtók 12 meinta hryðjuverkamann í Lancashire, Liverpool og Manchester. Mennirnir voru handteknir um hábjartan dag sem er óvenjulegt og að sögn breskra miðla bendir það til að hraða hafi orðið aðgerðinni.

Eftir handtökurnar sendi Quick frá sér yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar á mistökunum. Í morgun afhenti hann svo uppsagnarbréf sitt.

Skjalið var merkt trúnaðarmál og mátti sjá á því að 11 menn hið minnsta yrðu handteknir, einn Breti og 10 pakistanskir námsmenn í Bretlandi. Þeir væru taldir tengjast al Kaída og grunaðir um að leggja á ráðin um hryðjuverkaárás í Bretlandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×