Enski boltinn

Hodgson: Stig sem margir töldu að við kæmum ekki með til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
„Það var fullt af jákvæðum hlutum hjá okkur í þessum leik. Þetta var gott stig sem margir töldu að við kæmum ekki með til baka þar sem að það vantaði menn í liðið," sagði Roy Hodgson, stjóri Liverpool eftir markalaust jafntefli Liverpool í Napóli í dag en Liverpool lék án Steven Gerrard og Fernando Torres.

„Við svöruðum þeim hrakspám og erum ánægðir með stigið sem tryggir okkur áfram toppsætið í riðlinum," sagði Hodgson sem talaði einnig um árásina sem sex stuðningsmenn LÆiverpool urðu fyrir í aðdraganda leiksins.

„Stuðningsmenn okkar voru frábærir og það er erfitt að ætlast til þess af þeim að fylgja okkur til Napólí vitandi að þeir eru að stíga inn í hættulegar kringumstæður. Það eina sem ég get gert er að þakka innilega fyrir stuðninginn og votta samúð mína með þeim sem urðu fyrir árás," sagði Hodgson og hann skaut líka á ítalska fjölmiðlamenn.

„Ég var spurður af því af ítölskum fjölmiðlamönnum fyrir leikinn hvort ég óttaðist að fullir stuðningsmenn Liverpool myndu valda vandræðum á strætum Napolí. Það er hlægilegt að ég þurfi að verja stuðningmenn Liverpool fyrir ítölskum blaðamönnum þegar það eru friðsamir stuðningsmenn Liverpool sem lenda í því að vera stungnir," sagði Roy Hodgson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×