Sean Connery var 59 ára þegar People-tímaritið valdi hann kynþokkafyllsta karlmann heims. En nú er öldin önnur og drengir í blóma lífsins þykja flottastir.
Ný bylgja tröllríður nú Hollywood; barnungir strákar sem heilla amerískar húsmæður upp úr skónum. Nýr listi Glamour-tímaritsins er sönnun þess. Robert Pattinson, aðalstjarnan úr Twilight, trónir á toppnum en fast á hæla hans kemur Taylor Lautner, önnur Twilight-stjarna. Í þriðja sæti er síðan Ian Somerhalder úr Vampire Diaries en svo koma Xavier Samuel og Kellan Lutz, einnig leikarar í Twilight, í fjórða og fimmta sætinu. Athygli vekur að flestir af þeim leikurum sem skipa fimm efstu sætin eru fæddir eftir 1980, undantekningin er Ian Somerhalder, hann er 32 ára.

Á topp tíu listanum eru eingöngu tveir leikarar sem segja má að séu komnir til vits og ára. Johnny Depp hefur verið fastagestur í slíkum kosningum en fellur um nokkur sæti hjá lesendum Glamour. Depp, sem myndi seint kallast „gamall" er hins vegar 23 árum eldri en Pattinsson. Hinn leikarinn er Skotinn Gerard Butler, fulltrúi hinnar gömlu staðalímyndar um karlmannlegan kynþokka, hrjúfur og axlabreiður. Þetta virðist hins vegar dottið úr tísku þótt vissulega verði að taka fram að vinsældir og kynþokki haldast oft í hendur. Og Twilight-æðið, sem gerir nánast eingöngu út á myndarleika karlkynsstjarnanna, hefur vart farið fram hjá neinum.
