Körfubolti

NBA: Orlando vann auðveldan sigur í frumraun John Wall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Wall brýtur hér á Dwight Howard.
John Wall brýtur hér á Dwight Howard. Mynd/AP
Orlando Magic vann alla leiki sína stórt á undirbúningstímabilinu og byrjaði tímabilið síðan á 29 stiga sigri á Washington Wizards, 112-83,  í NBA-deildinni í nótt. Utah Jazz vann líka alla undirbúingsleiki sína en tapaði öðrum leiknum á tímabilinu á heimavelli fyrir Phoenix Suns.

Dwight Howard var með 23 stig og 10 fráköst í liði Orlando, Vince Carter skoraði 18 stig og Jameer Nelson var með 16 stig. Þetta var fyrsti heimaleikur Magic í nýju Amway Center höllinni.

John Wall var valinn fyrstur í nýliðavalinu og spilaði þarna sinn fyrsta alvöruleik með Washington-liðinu. Hann var með 14 stig og 9 stoðsendingar en hitti aðeins úr 6 af 19 skotum sínum. Cartier Martin var stigahæstur hjá liðinu með 17 stig.

Steve Nash og Hakim Warrick voru báðir með 18 stig þegar Phoenix Suns vann 110-94 sigur á Utah Jazz í Salt Lake City en bæði liðin höfðu tapað sínum fyrsta leik á tímabilinu. Utah tapaði frysta leiknum með 22 stigum fyrir Denver.

Jason Richardson skoraði 16 stig fyrir Phoenix og Hedo Turkoglu var með 13 stig í sínum fyrsta sigurleik síðan að hann kom til Suns.

Al Jefferson var stigahæstur hjá Utah með 20 stig, Paul Millsap var með 19 stig og 13 fráköst og Andrei Kirilenko skoraði 19 stig. Utah hitti aðeins úr 3 af 13 þriggja stiga skotum og fékk 21 færri stig út langskotum en lið Phoenix Suns.

Úrslit leikja NBA-deildarinnar í nótt:

Orlando Magic-Washington Wizards 112-83     

Utah Jazz-Phoenix Suns 94-110     

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×