(Önnur) vanhæf ríkisstjórn Ólafur Þ. Stephensen skrifar 2. október 2010 00:01 Óþægilegar minningar frá mótmælunum í janúar í fyrra hafa vafalaust sótt á marga er fréttir bárust af mótmælaaðgerðum á Austurvelli við setningu Alþingis í gær. Margt er líkt; mótmælendur sem veifa spjöldum og berja búsáhöld (sum andlitin eru meira að segja kunnugleg), lögreglumenn gráir fyrir járnum. Slagorðið „vanhæf ríkisstjórn". Nema hvað nú er önnur ríkisstjórn við völd en sú sem var mótmælt í janúar 2009. Sem betur fer fór ástandið ekki algjörlega úr böndunum í þetta sinn og enginn meiddist. Samt átti það sama við og í fyrra, að lítill hópur manna setti ljótan blett á mótmælin. Menn sannfæra engan um ágæti skoðana sinna með því að brjóta rúður í Dómkirkjunni og fleygja drasli í fólk. Það er ofbeldi, þótt það sé ekki jafnalvarlegt og það sem lítill hópur hafði í frammi fyrir hálfu öðru ári. Óánægjan með ástand mála er hins vegar klárlega undirliggjandi og brauzt fram á Austurvelli í gær. Margir af þeim sem í janúar 2009 voru hræddir og reiðir kunna í dag að vera í þeirri stöðu að hafa verið atvinnulausir síðan og jafnvel búnir að missa eignir sínar og heimili. Ríkisstjórnin hefur enn ekki leyst með sannfærandi hætti úr vanda skuldara. Ýmislegt hefur áunnizt, en talsverður hópur fólks telur það augljóslega ekki nóg. Nú er stóra spurningin hvort einhver munur er á ríkisstjórninni sem var hrópuð niður í ársbyrjun í fyrra og þeirri, sem nú er sögð vanhæf í hrópum mótmælendanna á Austurvelli. Hver er munurinn? Hvað getur þessi ríkisstjórn sem hin fyrri gat ekki? Getur hún sannfært fólk um að gripið verði til aðgerða sem duga til að „slá skjaldborg um heimilin", svo notaður sé einn útjaskaðasti frasi undanfarinna missera? Í stjórnarliðinu virðast sumir vera farnir að hafa efasemdir um það, eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Sumir stjórnarliðar vilja kosningar og telja að ríkisstjórnina hafi þrotið örendið. Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að skjaldborgin sé „ekki nema svipur hjá sjón hjá því sem hún átti að vera". Spurningin er áleitin, ekki sízt fyrir annan stjórnarflokkinn, Vinstri græn, sem tók upp samstarf við Samfylkinguna í stað Sjálfstæðisflokksins. Því fögnuðu margir, sem kölluðu „vanhæf ríkisstjórn" í fyrra skiptið. Vinstri græn höfðu heldur ekki látið sitt eftir liggja að ýta undir mótmælin og hjálpa til við skipulagningu þeirra. Sú söguskoðun er útbreidd, ekki sízt á meðal vinstri grænna sjálfra, að „búsáhaldabyltingin" hafi fleytt þeirra fólki í ráðherrastólana. Hvað segja þau nú? Hvernig sannfæra ráðherrar Vinstri grænna fólkið á Austurvelli um að þeir séu vandanum vaxnir? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Óþægilegar minningar frá mótmælunum í janúar í fyrra hafa vafalaust sótt á marga er fréttir bárust af mótmælaaðgerðum á Austurvelli við setningu Alþingis í gær. Margt er líkt; mótmælendur sem veifa spjöldum og berja búsáhöld (sum andlitin eru meira að segja kunnugleg), lögreglumenn gráir fyrir járnum. Slagorðið „vanhæf ríkisstjórn". Nema hvað nú er önnur ríkisstjórn við völd en sú sem var mótmælt í janúar 2009. Sem betur fer fór ástandið ekki algjörlega úr böndunum í þetta sinn og enginn meiddist. Samt átti það sama við og í fyrra, að lítill hópur manna setti ljótan blett á mótmælin. Menn sannfæra engan um ágæti skoðana sinna með því að brjóta rúður í Dómkirkjunni og fleygja drasli í fólk. Það er ofbeldi, þótt það sé ekki jafnalvarlegt og það sem lítill hópur hafði í frammi fyrir hálfu öðru ári. Óánægjan með ástand mála er hins vegar klárlega undirliggjandi og brauzt fram á Austurvelli í gær. Margir af þeim sem í janúar 2009 voru hræddir og reiðir kunna í dag að vera í þeirri stöðu að hafa verið atvinnulausir síðan og jafnvel búnir að missa eignir sínar og heimili. Ríkisstjórnin hefur enn ekki leyst með sannfærandi hætti úr vanda skuldara. Ýmislegt hefur áunnizt, en talsverður hópur fólks telur það augljóslega ekki nóg. Nú er stóra spurningin hvort einhver munur er á ríkisstjórninni sem var hrópuð niður í ársbyrjun í fyrra og þeirri, sem nú er sögð vanhæf í hrópum mótmælendanna á Austurvelli. Hver er munurinn? Hvað getur þessi ríkisstjórn sem hin fyrri gat ekki? Getur hún sannfært fólk um að gripið verði til aðgerða sem duga til að „slá skjaldborg um heimilin", svo notaður sé einn útjaskaðasti frasi undanfarinna missera? Í stjórnarliðinu virðast sumir vera farnir að hafa efasemdir um það, eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Sumir stjórnarliðar vilja kosningar og telja að ríkisstjórnina hafi þrotið örendið. Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að skjaldborgin sé „ekki nema svipur hjá sjón hjá því sem hún átti að vera". Spurningin er áleitin, ekki sízt fyrir annan stjórnarflokkinn, Vinstri græn, sem tók upp samstarf við Samfylkinguna í stað Sjálfstæðisflokksins. Því fögnuðu margir, sem kölluðu „vanhæf ríkisstjórn" í fyrra skiptið. Vinstri græn höfðu heldur ekki látið sitt eftir liggja að ýta undir mótmælin og hjálpa til við skipulagningu þeirra. Sú söguskoðun er útbreidd, ekki sízt á meðal vinstri grænna sjálfra, að „búsáhaldabyltingin" hafi fleytt þeirra fólki í ráðherrastólana. Hvað segja þau nú? Hvernig sannfæra ráðherrar Vinstri grænna fólkið á Austurvelli um að þeir séu vandanum vaxnir?